Stingir í leggöngum

03.01.2014
Sæl
Ég er gengin rúmar 35 vikur á leið og í dag er ég búin að vera með skrýtna stingi í leggöngunum og fór að þukla í leggöngunum og fann fyrir hausnum á krílinu er það alveg eðlilegt eða ætti ég að láta kíkja á þetta?
Sæl
Stingir í leggöngum seint á meðgöngu eru oftast alveg eðlilegir. Þetta getur verið vegna þess að barnið er búið að skorða sig og kollurinn þrýstir á leghálsinn en stundum merki um að leghálsinn sé í rólegheitunum að byrja að styttast og opnast. Þetta er eðlilegt ferli sem hefst oft áður en fæðing fer í gang. Kollurinn á krílinu er líklega kominn mjög neðarlega svo sennilega var þetta kollurinn sem þú fannst sem bungast niður í leggöngin og finnst gegnum leghálsinn með þreifingu. Leghálsinn er venjulega afturstæður áður en fæðing hefst svo maður finnur oftast ekki opið nema maður hafi þjálfun til þess.
Nokkrum fyrirspurnum um þetta efni hefur verið svarað hér á vefnum sem hægt er að finna með því að slá „stingir“ inn í leitina í spurt og svarað.
Ég hvet þig til að hafa samband ljósmóður í mæðravernd, það væri einnig gott að athuga þvagið hjá þér, hún getur skoðað þig og metið stöðuna betur.
Gangi þér vel


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
3. janúar 2014