Stingir í leggöngum

11.09.2007

Sælar góðu ljósmæður sem leggið ykkur fram við að fræða okkur verðandi mæður.

Ég er með spurningu varðandi sting í leggöngum. Ég er komin 35-36 vikur á leið og hef verið að fá sára stingi í leggöng. Verkurinn lýsir sér þannig að það er eins og stunga í leggöngum. Ég held að verkurinn sé u.þ.b. í miðjum leggöngum, en þó er erfitt að lýsa verknum sem fer jafn skyndilega og hann kemur. Verkurinn stendur vanalega yfir í örfáar sekúndur, en tíðnin virðist þó hafa aukist síðustu viku. Í fyrstu hélt ég e.t.v. að ég væri komin með blöðrubólgu en þar sem verkurinn tengist á engan hátt þvagláti þá tel ég ólíklegt að svo sé. Ég talaði um þetta við ljósmóður mína en fékk lítil viðbrögð og engin svör.

Með fyrirfram þökkum, Sólveig.


Það eru að ég held allflestar ófrískar konur sem kannast við þetta, lýsir sér sem snöggur sár stingur sem hverfur svo skyndilega, þetta er algengara í lok meðgöngu og tengist sennilega auknum þrýstingi frá höfði barnsins þegar það fer að koma sér neðar í grindina.

Kveðja,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
11. september 2007.