Spurt og svarað

05. janúar 2015

Stór kúla og skarð í vör.

Góðan dag og takk fyrir frábæran vef sem ég hef nýtt mér mikið þessa einu og hálfu meðgöngu sem ég hef upplifað. Ég er komin 23 vikur á leið með stelpu númer tvö, fyrir á ég eina 18 mánaða. Í 20 vikna sónar kom í ljós að daman er með skarð í vör og mjög líklega góm líka þar sem skarðið sem sást var það breitt. Ég var bókuð í annan sónar þegar ég verð gengin 30 vikur til að athuga hvort að legvatnið sé orðið of mikið vegna þess að hún getur átt erfitt með að kyngja. En málið er að mér finnst kúlan mín hafa stækkað mjög mikið bara núna yfir jólin. Ég er orðin svo svakalega þreytt bæði í líkamanum og bara svona almennt. Mér finnst oft erfitt að sitja upprétt því þá finnst mér þrýstingurinn svo mikill, sérstaklega upp í rifbeinin. Fæ samdrætti af og til en ekkert óeðlilega oft svo ég kippi mér ekki upp við það en svo finnst mér ég vera farin að fá "túrverki" neðst í kúluna og í nárann. Ekki mikla eða sára verki en ég finn vel fyrir þeim. Ég er bara hreinlega farin að velta því fyrir mér hvort það geti mögulega verið að það sé strax komið of mikið legvatn og þessi óþægindi stafi af því. Ef svo er hvar ætli bumban endi! Hvað er gert ef þetta byrjar svona snemma? Ég fer í skoðun hjá minni ljósmóður eftir tvær vikur og ræði þetta að sjálfsögðu við hana en það væri gaman að heyra ykkar skoðun.
Takk innilega kv. Saga


Komdu sæl Saga,
því miður er eiginlega ekki hægt að svara spurningu þinni án þess að skoða þig. Ég mundi ráðleggja þér fyrst þú ert komin með óþægindi  að hafa samband við þína ljósmóður og reyna að flýta skoðuninni. Það er gott að fá úr því skorið hvort eitthvað sé að gerast. Það er ástæðulaust að burðast með áhyggjur sem líklegast er að séu óþarfar.

Gangi þér vel og bestu kveðjur
Áslaug Valsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
05.01.2015
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.