Stórt barn

21.06.2005

Mig langar að leita smá ráða hjá ykkur og vona ég fái einhver svör. Málið er það að ég hef svo miklar áhyggjur af því að barnið sem ég geng með verði of stórt af völdum sykurstjórnunar og ekki verði fylgst nógu vel með því. Ég er núna komin 40 vikur og er allt of þung. Ég fór í sykurþolspróf um 30 vikur sem kom vel út og svo í vaxtarsónar út af legbotni sem var of hár þegar ég var komin 34 vikur, barnið virtist þá í eðlilegri stærð og líka legvatnið. Núna fór ég svo í mæðraskoðun og legbotnin var 45 cm þá komin 39 vikur og mér finnst ég vera að springa. Ljósmóðirin vildi ekkert við þessa mælingu gera og sagðist bara ætla að hætta að mæla legbotninn hjá mér. Mig vantar svo að vita hvort ég geti hafa myndað með mér sykursýki síðan ég fór í mælingu, og ef barnið verður stórt hvort fylgst verði með sykri þess þrátt fyrir að ég sé ekki greind með sykursýki? Ein ferlega hrædd um að hafa ekki rænu á að biðja um það og hrædd um að barnið krampi vegna sykurfalls. Takk fyrir góðan vef og von um góð svör.

.................................

Komdu sæl og þakka þér fyrir fyrirspurnina!

Það er alveg möguleiki á að þú hafir áunnið þér meðgöngusykursýki seinna á meðgöngu þrátt fyrir eðlilegt sykurþol við 30 vikur þótt líkurnar séu ekki miklar. Ef svo væri eru frekar miklar líkur á að sykur myndi mælast í þvagi þegar þú hefur mætt í mæðraskoðun og þú minnist ekki á að svo sé.

Ef þú ert í mikilli ofþyngd, eins og mér skilst á bréfi þínu, þá er í raun ekki alveg marktækt að mæla legbotninn því þykkt magaveggsins hjá þér getur skekkt niðurstöður mælinganna. Því getur í raun alveg verið að barnið þitt sé ekki endilega svo stórt. Kannski bara alveg í meðaltali.

Varðandi sykurmælingar hjá barninu eftir fæðingu þá fylgjast ljósmæður vel með börnum eftir fæðingu og ef nýfætt barn þitt sýnir einhver einkenni sykurfalls þá verður barnið mælt og gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir að barnið falli of mikið í sykri.

Ég vona að þetta svari spurningum þínum,

gangi þér vel,

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
21. júní 2005.