Stöðugar áhyggjur af barninu

26.06.2007

Ég er alltaf að hugsa um hvort það sé ekki allt í lagi með barnið, langar helst að fara einu sinni í viku til að láta athuga hvort það sé ekki allt í fínu. Ég reyki ekki né drekk, borða frekar hollt og hreyfi mig þokkalega. Er komin 14 vikur á leið (fyrsta meðganga) og þegar ég fór í 12 vikna skoðunina hjá ljósu var hjartslátturinn svo lengi að finnast en hann fannst svo að lokum :) Samt er ég alltaf svo stressuð að það sé allt í lagi, og ég er í þannig vinnu að ég þarf aðeins að teygja mig upp (er lágvaxin) og hef stöðugar áhyggjur af því hvort þetta sé að meiða barnið!
Svo á morgnana þegar ég vakna finnst mér maginn svo mjúkur og lítill (er oftast frekar harður og er komin með smá bumbu) en svo þegar það fer að líða á daginn þá breytist það. Kærastinn minn er orðinn frekar þreyttur á þessu og segir mér alltaf að hafa engar áhyggjur. Ég á svona venjulega hlustunarpípu og langaði líka að vita hvort ég gæti hlustað á hjartsláttinn í gegnum hana eða er það of snemmt? Og svo hef ég líka áhyggjur af því hvort að þessi taugaveiklun hjá mér skaði barnið eitthvað.

Takk fyrir :)


Sæl og takk fyrir fyrirspurnina!
 
Ég tel áhyggjur þínar óþarfar, en það gæti hjálpað að fá að koma oftar í hlustun í mæðraskoðunina. Það er ekki óeðlilegt að fyrst þegar hjartslátturinn er hlustaður taki það lengri tíma því fóstrið er svo lítið og erfitt að finna rétta punktinn yfir hjartslættinum og það er oft á fleygiferð. Þar sem þú ert ekki komin svo langt og líklega ekki farin að finna hreyfingar þá veldur það þér líka áhyggjum, þetta lagast þegar þú ferð að finna meira fyrir fóstrinu. Það er ekki óeðlilegt að maginn sé mjúkur að morgni því þá ert þú nýkomin úr hvíld, það er líka eðlilegt að finna að maginn harðni það má bara ekki gerast of oft, en legið er svona vöðvi sem dregst saman og slaknar. Myndi ekki mæla með að þú værir sjálf að hlusta hjartsláttinn það eykur á stress hjá þér. Það á ekki að vera vandamál að fá að koma í aukahlustun.

Áhyggjur þínar hafa mest áhrif á þína eigin líðan. Hugsaðu vel um sjálfa þig á meðgöngunni.

Með von um að þetta hjálpi þér.

Kær kveðja,

Sigrún E. Valdimarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. júní 2007.