Spurt og svarað

03. júní 2014

Stöðugt með lágan hita

Sæl,
Ég er komin 17 vikur á leið með barn númer 3. Þessi meðganga hefur verið aðeins öðruvísi en hinar tvær, allt gekk vel framan af en svo fékk ég kvef sem ég átti erfitt með að losna við. Endaði með að þurfa tvo sýklalyfjaskammta til að losna við bólgur í kinnholum og ennisholum, auk eyrnabólgu. Ég er núna búin með seinni sýklalyfjaskammtinn (Augmentin) og ég er búin að lagast helling, held að bólgurnar séu farnar í kinnum og enni. Það sem stendur eftir hins vegar er að ég er ennþá alltaf með smávægilegan hita. Ég s.s. tók eftir því fyrir nokkrum vikum síðan að ég var með lágan hita, hitinn rokkar á bilinu 37,5-38°c. Þetta er auðvitað vægur hiti en hann er búinn að vera til staðar núna í allavega 2-3 vikur. Ég hélt hann væri kannski út af kinnholubólgunni, en nú er hún farin svo ég skil ekki af hverju hitinn fer ekki niður. Það dregur verulega úr orkunni hjá manni að vera alltaf með einhverjar kommur og væri ég mjög glöð ef þessi hiti myndi fara en ég er farin að halda að það muni ekkert gerast. Ég var að lesa mér til á netinu og þar tala sumir um að það sé eðlilegt að hiti hækki á meðgöngu, ég er venjulega með hita rétt um 37°c, á bilinu 36,8-37,1°c. Er þetta eðlilegt meðgöngu einkenni, þó ég sé komin 17 vikur á leið eða er þetta eitthvað skrítið?
Með fyrirfram þökk!Sæl!
Eftir því sem ég kemst næst er eðlilegt að líkamshiti hækki lítillega á meðgöngu, þ.e. þegar venjulegur líkamshiti er 37°c og hækkar í um 37,8°c. Líkamshitinn hækkar vegna aukningar á blóðflæði á meðgöngunni. Þess má einnig geta að efnaskipti í líkamanum verða einnig hraðari, aukast um 20% sem einnig hækkar líkamshita. Í þínu tilfelli myndi ég hinsvegar ráðleggja þér að ræða við ljósmóðurina þína í næstu mæðraskoðun, blóðprufa væri góð hugmynd til að athuga hvort einhver sýkingarmynd sé í blóðinu hjá þér.
Gangi þér vel.


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
3. júní 2014.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.