Streita og samdrættir

19.02.2008

Komið þið sælar og takk fyrir frábærar upplýsingar.

Ég er með eina spurningu til ykkar og hún er sú hvort streita og álag geti valdið samdráttaverkjum? Ég er komin 20 vikur á leið og á börn fyrir. Ég hef verið undir töluverðu andlegu álagi undanfarna mánuði og fann í gær verki sem minntu mig á samdráttaverki. Getur það verið rétt? Ég var auðvitað líka með mjög mikinn hjartslátt.

Annars hefur meðgangan gengið vel og það gekk líka vel á hinum meðgöngunum en þá var rólegt í kringum mig.

BH.


Komdu sæl BH

Jú það er rétt að stress og álag getur valdið samdráttum þannig að ef þú getur minnkað streituna þá væri það mjög gott.  Það er ekki gott að vera með mikla samdrætti, sérstaklega ekki svona stutt með gengin og ef þeir verða fleiri en 4 á klukkutíma þá er rétt að leita til ljósmóður eða læknis.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
19. febrúar 2008.