Spurt og svarað

25. júní 2007

Streptokokkar

Sælar, og takk fyrir frábæran vef.

Var að velta því fyrir mér þar sem ég fór með 11 ára dóttur til læknis, og í ljós kom að hún er með streptokokkasýkingu.  Þá spurði læknirinn mig hvort ég (er komin 31 viku.) hvort ég væri búin að fara í síðasta tékk, nei sagði ég þar sem ég á rúma tvo mánuði eftir.  Þá sagði hann að það væri nauðsyn að ræða þetta við ljósmóðurina mína þar sem væru jafnar líkur á að ég fengi þetta eins og barnið.....Ég þyrfti ekki að finna fyrir neinum einkennum þó barnið væri sýkt.  og ef barnið sýktist gæti það reynst hættulegt...!  Hvað er það sem í raun getur gerst??  Hversu hættulegt getur þetta verið?? Og er það algengt að barn í móðurkviði fái svona sýkingu?

Kveðja, Einni sem var nett brugðið!

 


 

Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Ég tek því þannig að dóttir þín hafi verið með streptokokka sýkingu í hálsi. 

Til eru tvær gerðir streptokokka. önnur veldur hálsbólgu en hin tegundin dvelur oft í leggöngum og leghálsi kvenna án þess að þær fái nein einkenni þaðan.  Það er því afar ólíklegt að hálsbólgutegundin hafi nein áhrif á barnið sem þú gengur með, en hinsvegar getur þú auðvitað sýkst af hálsbólgunni með tilheyrandi óþægindum. 

Konur sem vitað er um að eru með streptokokka týpu B í leggöngum eru gefin sýklalyf í fæðingunni til að varna smiti til barnsins.  Hinsvegar er ekki leitað kerfisbundið að þessum bakteríum hjá konum á meðgöngu þar sem um mjög fá tilfelli er að ræða þar sem barnið veikist af þeirra völdum.  Barnið sýkist ekki í móðurkviði heldur geta bakteríurnar borist til þess í fæðingunni.  Ef það gerist getur barnið veikst mjög mikið og þarf þá á sýklalyfjum að halda og sennilega sjúkrahúsvist en eins og ég sagði áðan er það afar sjaldgæft að börn veikist og þá ekki af þessari tegund sem dóttir þín hefur verið með.

Vona að þetta svari spurningum þínum.

Bestu kveðjur,

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
25. júní 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.