Streptokokkar á 11. viku - Keflex

24.01.2008

Sælar og takk fyrir fróðlegan og góðan vef.

Ég er gengin 10 vikur og 5 daga og var að koma frá lækni sem greindi mig með streptokokkasýkingu í hálsi og lét mig fá lyf sem heitir Keflex því ég er með penisillínofnæmi. Mér er illa við að taka lyf á meðgöngunni en læknirinn sagði að það væri einnig slæmt að leyfa sýkingunni að grassera í líkamanum. Mig langar því að heyra ykkar álit á þessu lyfi?


Sæl og blessuð!

Samkvæmt upplýsingum í Sérlyfjaskránni þá má gefa má þunguðum konum og konum með barn á brjósti þetta lyf. Í dýrarannsóknum hafa fósturskaðar ekki komið í ljós. Það hafa ekki verið gerðar fullnægjandi eða skipulagðar rannsóknir á þunguðum konum og þar sem dýrarannsóknir geta ekki alltaf sagt fyrir um svörun hjá mönnum skal aðeins nota lyfið ef brýna nauðsyn beri til.

Eins og læknirinn þinn sagði þá er slæmt að láta sýkinguna grassera í líkamanum og því má segja að hann hafi metið það svo að ávinningurinn af lyfjainntökunni sé meiri en hugsanleg áhætta.

Vona að þér batni fljótt.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. janúar 2008.