Spurt og svarað

20. júní 2011

Streptokokkar í leggöngum

Ég er gengin 38 vikur og greindist með streptokokka í leggöngum í síðustu viku. Ég var sett á sýklalyf núna og er að taka það 2x á dag. Ljósmóðirin sem hringi í mig og tilkynnti mér fréttirnar sagði að þetta væri viku skammtur sem ég ætti að taka en samt fékk ég töflur fyrir 10 daga . Á ég að klára skammtinn?  Mér líður alveg ógeðslega illa yfir þessu og er engan vegin að höndla þetta álag.  Ég er með áfallastreituröskun eftir síðustu fæðingu og ég hef mjög lítinn tíma til að koma mér aftur á rétt ról og er hrædd um að það takist ekki.  Ég reyni að slaka á en ég hef þungan hjartslátt og oft er þungt að anda.  Ég er farin að fjarlægjast barnið, mér finnst ég ekki geta hlakkað til að fá að, veit ekki hvort ég eigi eftir að geta haldið á því og gefið því brjóst, hvað þá ef það verður veikt.  Er ég að gera úlfalda úr mýflugu þegar það er möguleiki á því að allt verði ekki eins og maður óskar sér?  Það sem ég hef lesið á netinu er að ég þarf að hafa sýklalyf í æð í fæðingunni sem ég gæti hugsanlega sætt mig við ef nálin verður fjarlægð á milli þess sem hún er í notkun. Er það eitthvað sem er hægt að óska eftir?  Annað sem
ég sá er að sýklalyfin sem gefin eru í æð og koma í veg fyrir að barnið veikist geta valdið því að barnið geti verið næmara fyrir e-coli sýkingu er eitthvað til í þessu?  Eða verður það kannski næmara fyrir hvaða sýkingum sem er?  Á ég að takmarka heimsóknir til mín þótt að barnið sé ekki veikt?  Hvað get ég sagt við fólk?  Er möguleikinn ekki minni á sýkingu ef barnið er tekið með keisara?  Þá fer það væntanlega ekki í gegnum sýktan fæðingarveg. Ég reyni að hugsa þetta jákvætt og að
allt fari vel en ég á rosalega holóttum vegi þessa dagana. Og ég er mjög hrædd um að þegar á hólminn er kominn að ég geti ekki ýtt barninu út því það gæti sýkst.

Kveða

Áhyggjubankinn


Komdu sæl.

Það er leiðinlegt að heyra hvað þér líður illa yfir þessu.  Það gæti verið gott fyrir þig að fara til læknis eða ljósmóður og fá að ræða þetta nákvæmlega svo og þann kvíða sem þú upplifir vegna þessa og fá aðstoð. 

Þegar komið er að fæðingu er aldrei hægt að ábyrgjast að allt fari eins og konan/foreldrarnir óska sér en þar sem þú ert á sýklalyfjum og færð sýklalyf í fæðingunni eru næstum engar líkur á því að barnið veikist.  Líklegast er að þetta hafi engin áhrif á barnið.  Ég hef ekki heyrt um að börn kvenna sem fá sýklalyf í fæðingu séu útsettari fyrir öðrum sýkingum en vissulega eru nýburar viðkvæmir fyrstu 3 mánuðina vegna óþroskaðs ónæmiskerfis.  Þar af leiðandi þarf að verja það sýkingum svo sem með því að fara ekki með það á fjölfarna staði eða vera innan um veikt fólk.  Almennt ríkir góður skilningur á þessu meðal fólks.

Þú þarft að klára sýklalyfjaskammtinn sem þú fékkst hjá lækninum.  Varðandi sýklalyfin í fæðingu getur þú að sjálfsögðu óskað eftir því að æðaleggurinn sé tekinn inn á milli en það þýðir aukin óþægindi fyrir þig þar sem þá þarf að stinga þig oftar en einu sinni.

Keisari er ekki betri kostur þar sem allt er gert til að barnið sýkist ekki í fæðingu.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
20. júní 2011.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.