Spurt og svarað

30. janúar 2018

Stíflað brjóst?

Sælar Ég á þriggja mánaða dreng sem er mitt þriðja barn og hefur brjóstagjöfin alltaf gengið vel með fyrstu tvö. Það gengur reyndar mjög vel en um jólin fékk ég líklegast stíflu í annað brjóstið sem ég lét líta á (á læknavaktinni), sá vildi setja mig á sýklalyf því honum fannst vera kominn roði á svæðið þar sem ég var svo helaum að varla mátti snerta mig. Það var líka mjög sárt þegar drengurinn minn byrjaði að drekka en lagaðist svo þegar hann var búinn að drekks aðeins úr því brjósti. (Áður en ég fór til læknis hafði ég ekkert gert sjálf til að reyna að losa þetta, ég vissi í raun ekkert hvað þetta var). Áður en sýklalyfin byrjuðu að virka fékk ég svo hita og beinverki og var virkilega lasin í 1-2 daga. Stíflan fór svo eftir þetta. Núna finn ég að ég er að fá þetta aftur, er helaum á innanverðu vinstra brjóstinu en finn ekki hnúta eða að brjóstið sé hart á því svæði. Ég gef nánast alltaf í sömu stellingu (sitjandi) þar sem drengurinn minn ælir mjög mikið og finnst ekki gott að liggja alveg útaf. Ég gef oftast bara annað brjóstið nema kanski á kvöldin þegar honum virðist ekki duga bara annað. Það er ekki vont að gefa honum, allavega ekki ennþá. Mínar spurningar eru þessar: Er mér óhætt að bíða og sjá hvað gerist? Ég er búin að vera svona aum í tvo dag (engin roði, hnútar eðahiti/hrollur). Hvenar ætti að leita læknis? Lýsir þetta sér eins og stífla? Og ef svo er hvað get ég gert sjàlf til að laga þetta og til að fyrirbyggja að þetta endurtaki sig. Bestu kveðjur

Heil og sæl, það er í lagi að sjá til hvað gerist en þú þarft að reyna að meðhöndla þetta sjálf með því að mjólka/nudda brjóstið á þessu svæði - gefa í öðrum stellingum. Það er gott að setja heitan bakstur á áður en þú ferð að mjólka brjóstið eða fara í heita sturtu. Þetta hljómar reyndar ekki eins og stífla því að þá er oftast auk eymslanna, þykkildi og eða roði. Þú leitar til læknis ef þú ert komin með hita eða mikinn roða í brjóstið. Hugsanlega getur þú fengið tíma hjá ljósmóður á heilsugæslustöðinni þinni og látið hana skoða brjóstið og ráðleggja þér. Það er erfitt að ráðleggja nokkuð með vissu án þess að sjá þetta. Gangi þér vel. 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.