Drekkur stutt í einu og verður reið

07.02.2018

Heilar og sælar og takk fyrir frábæran vef! Ég er búinn að vera aðeins áhyggjufull af gjöfum hjá mér núna en dóttir mín sem er 7vikna hefur tekið upp á því síðustu þrjá daga að vera að drekka mjög stutt í einu oft 2-5 mínútur í hvert skiptið og verður mjög reið ef ég reyni að leggja hana aftur á, er búinn að reyna mitt besta að vera þolinmóð og reyna nokkrum sinnum en hún verður oft mjög fúl og svo þegar ég tek hana frá virðist hún sátt og glöð en fer þá að sleikja á sér hendurnar sem ég tek sem merki um að hún sé enn svöng. Þó hefur hún alltaf fengið amk eina langa gjöf á þessum þremur dögum sem standa þó ekki lengur en mesta lagi 20 mín. Það getur ekki verið að hún sé að fá nóg á svona stuttum tíma, brjóstin mín eru ekki lengur stinn og hörð eins og þau voru en samt gúlpast upp í hana þegar hún byrjar að sjúga. Þangað til núna hef ég alltaf verið með mikla mjólk en núna er eins og flæðið sé minna miðað við hennar hegðun. Ég hef reynt að vera duglegri að leggja hana á og drekka oftar. Kannski gott að taka það fram að það er búinn að vera mikill þvælingur á okkur síðustu daga vegna flutninga og svo var ég með sveppasýkingu og sár á geirvörtunum sem er allt á batavegi núna sem betur fer. Þrátt fyrir það var samt alltaf næg mjolk og hún fylgdi vaxtarkúrfu upp á 10 en það er eitthvað skrítið núna. Hvað get ég gert til þess að láta hana hætta að vera pirruð á brjóstinu? Ætli rennslið sé ekki bara minna en það var? Ætti ég kannski bara að fá mér eitthvað mjólkuraukandi? Er þetta kannski bara eitthvað sem gengur yfir? Bestu kveðjur

Heil og sæl, það getur alveg verið að hún drekki nægju sína á þessum tíma. Það er misjafnt milli barna hversu lengi þau vilja vera við brjóstið. Sum vilja bara borða og sleppa svo brjóstinu meðan önnur totta hægt og rólega og dunda lengi við brjóstið. Ef hún þyngist vel og er róleg og sátt þá skaltu ekki hafa áhyggjur af þessu. Ef mjólkin hefur minnkað hjá þér þá er það tímabundið og væntanlega eykst framleiðslan aftur, sérstaklega þar sem þú ert dugleg að leggja á og bjóða henni oftar. Þú ert búin að vera að flytja og verið með sár á vörtunum. Sjáðu til hvort þetta fer ekki allt í samt lag þegar þú ert búin að jafna þig á flutningum og sárum. Gangi ykkkur vel.