Mikil vanlíðan

06.03.2018

Sæl Ég er núna ófrísk af mínu öðru barni og við vorum búin að vera reyna í ár að búa þetta kríli til og svo loksins þegar það gerðist þá vorum við virkilega glöð og spennt en núna þá finnst mér ég vera uppfull af kvíða og vanlíðan. Vil helst ekki vera segja neinum frá óléttunni, vil bara halda henni útaf fyrir okkur. Er með kvíðahnút yfir að þurfa eiga á lsh sérstaklega eftir að hafa séð snappið frá þeim um deildina þar sem konur þurfa að deila herbergi og maður getur kannski ekki fengið baðið ef það er mikið að gera :/ Eins hef ég miklar áhyggjur af eldri stelpunni okkar þar sem við höfum alltaf verið mikið tvær saman og hún er algjör mömmustelpa og hvernig ég eigi að elska annan einstakling jafn mikið og hana. Og svo til að toppa þetta allt saman þá var brjóstagjöfin síðast svo mikill hryllingur að bara að hugsa um að setja annað barn á brjóst veldur mér miklum kvíða. En ég var með blæðandi sár þar ofan í blöðrur fullar af vökva :/ og ljósan sem var að sinna okkur á spítalanum kom og tróð stelpunni á brjóstið og kom svo aftur 15 mín síðar og reif hana af sagði að það ætti ekki að venja börn á að vera lengi að drekka :/ . Við fengum aldrei neina kennslu eða leiðbeiningar. Mig langar auðvitað ekki að líða svona, mig langar að vera spennt og glöð og hlakka til en er svo lost og hálf skammast mín fyrir að líða svona sérstaklega þar sem allir eru svo spenntir í kringum okkur. Ég er ekki með neina ógleði eða þannig líkamleg einkenni en er samt alveg í rusli, afsakið hvað þetta er langt en hvað get ég gert og hvert get ég leitað ?

Heil og sæl, bréfið þitt tekur á nokkrum atriðum svo ég ætla að reyna að svara þér í röð. Varðandi það að eiga á LSH þá þarftu þess ekki endilega ef meðgangan er eðlileg og allt er gott. Það eru aðrir möguleikar svo sem eins og heimafæðing, Selfoss, Keflavík, Akranes og fæðingastofa Bjarkarinnar. Ef þú þarft/eða velur að fæða á LSH þá er ekkert víst að allt fari á versta veg. Hugsanlega er baðið laust og fáar á sængurkvennagangi. Það er líka möguleiki ef þú treystir þér til að fara beint heim eftir fæðinguna og fara ekki á sængurkvennagang. Ég ráðlegg þér að nota þessar vikur fram að fæðingunni til að skoða vel hvaða möguleika þú hefur varðandi fæðinguna og hvernig er heppilegast að haga sængurlegunni. Það eru nokkrir möguleikar eins og ég sagði áðan. Hvað varðar stelpuna þína þá er gott að undirbúa hana fyrir stóru systur hlutverkið þar til barnið fæðist. Langoftast gengur það vel en þarf stundum svolitla þolinmæði og tíma. Hafðu ekki áhyggjur af þeim tilfinningum sem þú munt bera til nýja barnsins, það mun koma af sjálfu sér. Hvað varðar brjóstagjöfina ráðlegg ég þér að að nota tímann til að undirbúa til og skoða hvaða heimaþjónustuljósmóðir gæti hentað þér. Sumar þeirra eru brjóstagjafaráðgjafar og ég ráðlegg þér að reyna að fá einhverja þeirra til að sinna þér eftir fæðingu. Að lokum ráðlegg ég þér að ræða þetta allt saman við ljósmóðurina þína í meðgönguverndinni og fá stuðning og ráðleggingar hjá henni. Gangi þér vel.