Barn sem vill ekki brjóst nema á nóttunni

06.03.2018

Takk fyrir frábærann vef! Ég á 11 vikna dóttur sem hefur þyngst lítið frá fæðingu. Hún byrjaði að fá ábót öðru hvoru og svo pela á kvöldinn fyrir nóttina og sefur vel og virtist sátt í upphafi en svo varð hún smátt og smátt pirruð og örg á brjóstinu. Í 9 vikna skoðun var hún dottin niður um kúrvu og ég var eiginlega bara að gefast upp á brjóstagjöfinni. Ég ætlaði að trappa hana niður smátt og smátt en eftir að hún fór að fá pela neitar hún alveg brjóstinu. Hún grætur og snýr sér frá því og gargar þar til hún fær pelann sinn og þá er hún mjög sátt. Eina skiptið sem hún tekur brjóst er á nóttunni og ég er mjög glöð að hún tekur það þá enda rosa þæginlegt að þurfa ekki að fara og græja pela þá, þetta eru 1-2 gjafir. En ég vildi fá að vita hvort það væri einhver leið til að fá hana til að taka aftur brjóst á daginn ef ég næ framleiðslunni upp? Ég sé eitthvað rosalega eftir brjóstagjöfinni og finnst að ég hefði átt að reyna betur og vil gjarnan gera það en hún tekur bara ekki brjóstið.

Heil og sæl, fræðilega séð átt þú að geta náð upp framleiðslunni aftur. Það krefst hins vegar talsverðrar vinnu og þolinmæði. Þú getur dregið úr pelanum og gefið henni brjóst þegar hún er ekki mjög svöng og látið hana totta. Einnig er hægt að nota hjálparbrjóst þá sýgur hún brjóstið jafnframt því að sjúga úr hjálparbrjóstinu svo hún verður þolinmóðari. Svo er líka hægt að fara í mjaltavél og reyna að örva brjóstið þannig til að ná upp framleiðslunni. Að lokum er möguleiki að kaupa þér einn tíma hjá brjóstagjafaráðgjafa til að fá faglegar leiðbeiningar. Gangi þér vel.