Spurt og svarað

06. mars 2018

6 mánaða sem vill ekki brjóstið

Sælar ljósmæður, Strákurinn minn er tæplega 6 mánaða og hefur verið á brjósti frá fæðingu. Hann er byrjaður að fá graut og mauk 2-3x á dag. Það hefur gengð bara nokkuð vel og hef ég reynt að gefa honum brjóstið alltaf eftir á. En upp á síðkastið hefur hann ekki viljað brjóstið. Fyrst byrjaði hann alveg að neita öðru brjóstinu og vildi bara drekka úr hinu brjóstinu. Hef reynt að plata hann um nóttina til að drekka úr því en það hefur ekki gengið nógu vel og því hefur framleiðslan dottið smá niður. Sl. daga hefur hann síðan byrjað að neita hinu brjóstinu líka svona af og til. Er stundum til að drekka en stundum verður hann bara brjálaður og öskrar ef ég býð honum brjóstið. Þá hef ég pumpað i pela og gefið honum. Hann neitar ekki pelanum. Er eitthvað sem ég get gert til að laga þetta? Gæti þetta verið bara tímabil eða vaxtarkippur sem gæti útskýrt þessa hegðun? Vonast til að heyra í ykkur.

Heil og sæl, þetta getur vel verið tímabil sem gengur yfir og lagast af sjálfu sér. Stundum hætta börn líka sjálf á brjósti, þegar þau eru farin að borða, þrátt fyrir að móðirin reyni allt sem hún getur til að halda brjóstagjöf og framleiðslan sé næg. Ég held að sé lítið annað í stöðunni fyrir þig en að bíða róleg, halda áfram að bjóða honum sérstaklega þegar hann er ekki mjög svangur og vel liggur á honum og sjá hverju fram vindur. Gangi ykkur vel. 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.