Fóstrið dáið. Ekki byrjað að blæða.

08.03.2018

Sælar og takk fyrir frábæran vef. Ég fór í sónar þegar ég var komin 7 vikur skv útreikningum síðustu blæðinga og egglosprófi. Læknirinn sagði mig samt komna 5 vikur samkvæmt blóðprufu og hvað sekkurinn var lítill. Ég fór í sónar aftur 2 vikum seinna, var örlítið að blæða (nokkrir dropar). Og hann segir að sekkurinn hafi stækkað en ekki fóstrið og það er enginn hjartsláttur. Á sónarmynd sést sekkurinn margfalt stærri á 2 vikum en bara smá blettur þar inní. 1. Er þetta það sem kallast dulið fósturlát? Því sekkurinn hélt áfram að stækka. 2. Hvenær get ég átt von á að líkaminn losi sig við fóstrið? Og hverju get ég átt von á varðandi blóðmagn og verki? 3. Get ég flýtt fyrir þessu? 4. Hverjar eru líkurnar á að ég missi aftur? Læknirinn vill helst að líkaminn geri þetta sjálfur í staðin fyrir að fá töflur eða fara í aðgerð. Ég fór líka að velta fyrir mér hvort ég hafi í raun verið komin 7 vikur í fyrstu skoðun en að það hafi strax verið eitthvað að svo það leit út fyrir að vera bara 5 vikur. Læknirinn minn er erlendis og ég meðtók ekki allt í tímanum þar sem ég fékk þessar fréttir. Takk fyrir

Heil og sæl, það er frekar erfitt að svara þér af nokkurri nákvæmni þar sem þetta er svolítið einstaklingsbundið. Jú það er kallað dulið fósturlát þegar hvorki koma fram verkir né blæðing þó að fóstrið sé farið. Það er engin regla á því hvenær líkamninn losar sig við fóstrið en líkast til gerist það fljótlega eða fyrir það sem hefðu átt að vera 12 vikur. Ég veit ekki um nein ráð til að flýta fyrir þessu ferli. Það eru alltaf talsverðar líkur á fósturláti en kona sem hefur eitt fósturlát að baki er ekkert í meiri hættu á að missa aftur heldur en hver önnur kona og það eru góðar líkur á að allt gangi vel næst. Jú það getur vel verið að það hafi strax verið eitthvað að svo meðgöngulengd leit út fyrir að vera styttri. Gangi þér vel.