Upplýsingar um fæðingu eftir keisara

09.03.2018

Sæl, Konan mín átti fyrra barn með keisara og er aftur ólétt núna. Mér finnst alls ekki liggja skýrt fyrir hvernig “æskilegt” fæðingarferli er eftir einn keisara og við erum alltaf að komast að nýjum hlutum varðandi ferlið (t.d. að það er æskilegt að vera í mónitor og með æðalegg frá byrjun.) Getur þú farið í gegnum það sem er öðruvísi við svona fæðingar? Þið eruð með svar hér frá 2006 um að 60-80% kvenna fæða hér á landi eftir keisara. Hverjar eru tölurnar í dag? Fyrri meðganga var mjög heilbrigð og allt gekk mjög vel. Hún fór sjálf af stað en eina ástæða keisarans var að barnið var í þverlegu því það hafði skorðað olnbogann niður. Hún virðist því ekki vera í miklum áhættuhóp þó ég geri mér grein fyrir að það þurfi að fylgjast vel með því hvort allt sé í lagi út meðgönguna. Ef allt virðist vera í lagi í gegnum meðgönguna þarf þá í alvöru að gera svona miklar varúðarráðstafanir? Er í alvöru bara gert eitt hakastrik við “fyrri keisari” og það sama gengur yfir þær allar óháð aðstæðum? Konan mín er mjög, mjög stressuð fyrir þessari fæðingu, enda búin að komast að því að fyrri keisarinn virðist ekki aðeins hafa svipt hana möguleikanum af heimafæðingu heldur einnig “eðlilegri” fæðingu án aukahluta á spítala. Henni líður eins og hún hafi verið sett á einhverskonar fæðingafæriband á stofnun og það sé ekkert sem hún geti gert í því. Eins og allir vita hefur mikill ótti og streita áhrif á fæðingarferlið og það hlýtur þá að ganga fyrir að láta konunni líða vel. Mig langar því að vita hvern ég get talað við varðandi undantekningar á sumum af þessum atriðum. Það er t.d. ekki “mælt” með heimafæðingu, en hvernig snýr maður sér ef maður vill reyna á það samt? Ef það er ekki hægt, hversu mikill möguleiki er að sleppa t.d. æðaleggnum sem er mikill óttavaldur hjá konunni? Bestu kveðjur og með von um upplýsingar, Áhyggjufullur eiginmaður

Heill og sæll, ég skil ykkar pælingar mjög vel. Ég held ég geti með sanni sagt að það er tekið tillit til óska konunnar ef hægt er t.d. varðandi æðalegginn.  Það sem ég held að gæti verið hjálplegt fyrir ykkur er að fá viðtal við fæðingalækni og/eða ljáðu mér eyra hópinn á LSH. Þar getið þið rætt málið, látið ykkar sjónarhorn koma fram - það er alltaf erfiðara að fara að ræða um hvaða möguleikar eru í stöðunni þegar í fæðinguna er komið, það er betra að vera búinn að leggja línur áður. Ef þið eruð að velta fyrir ykkur heimafæðingu þá er það rétt sem þú segir að það er ekki mælt með því en ef þið viljið samt þá er rétta leiðin að snúa sér til heimafæðingaljósmæðra og ræða við þær  http://www.ljosmaedrafelag.is/thjonusta/heimafaedingar 
Vonandi finnst viðunandi laun á málunu. Gangi ykkur vel.