Spurt og svarað

28. júní 2009

Stuttbylgjumeðferð á meðgöngu

Sæl!

Ég hef verið í meðferð hjá sjúkraþjálfara í vetur vegna verkja í hásin og beitti hann meðal annars stuttbylgjum á hásinina, tíu mínútur í senn. Ég mætti til hans einu sinni til tvisvar í viku. Ég sagði honum að ég væri ólétt þegar ég var gengin 14 vikur og þá virtist honum brugðið og sagði að hann yrði að hætta stuttbylgjumeðferðinni strax. Kvenkyns sjúkraþjálfarar mega ekki beita þessari meðferð þegar þeir eru óléttir því að geislunin getur valdið fósturláti eða einhverjum öðrum fósturskaða, sem hann vissi reyndar ekki meiri deili á. Hann hætti meðferðinni strax en ég velti því fyrir mér hvort að fóstrið gæti hafa orðið fyrir einhverjum skaða? Hnakkaþykktarmælingin kom vel út og allt virðist eðlilegt en ég er engu að síður óróleg yfir þessu. Ég spurði ljósmóðurina mína um þetta og hún vissi ekkert um þetta og sagði bara að það væri hvort eð er ekkert hægt að gera í þessu úr því sem komið er. Þetta svar róaði mig ekki neitt þannig að ég ætlaði að athuga hvort þú vissir eitthvað frekar um áhrif stuggbylgna á fóstur?


Sæl og blessuð!

Niðurstöður rannsókna sem hafa aðallega verið gerðar á sjúkraþjálfurum sem vinna með stuttbylgjur eru eitthvað misvísandi en mögulega eru einhver tengsl á milli notkun stuttbylgna og fósturláta, fósturskaða og lágrar fæðingaþyngdar. Ein rannsókn sýndi hvorki auknar líkur á fósturlátum né fósturgöllum en hins vegar auknar líkur á lágri fæðingarþyngd. Það er að sjálfsögðu mjög skiljanleg og algjörlega réttlætanleg varúðarráðstöfum að ráðleggja sjúkraþjálfurum að vinna ekki með stuttbylgjur á meðgöngu ef minnsti grunur leikur á að þær geti valdið fósturláti, fósturskaða eða lágri fæðingarþyngd. Og sömuleiðis hárrétt að hætta í stuttbylgjumeðferð um leið og þungun uppgötvast.

Það er með þetta eins og svo margt að ekki er hægt að svara þessu með neinni vissu. Það sem er jákvætt er að þú komst aðeins í snertingu við stuttbylgjur í nokkur skipti en varst ekki að vinna með þær á hverjum degi svo það er mjög ólíklegt að þetta hafi áhrif á meðgönguna.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. júní 2009.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.