Töflur til að stoppa mjólkurframleiðslu.

23.03.2018

Góðan dag og takk fyrir frábæran vef. Nú á ég von á mér eftir nokkra daga. Ég er flogaveik og er á sterkum lyfjum og með Reynaud heilkenni og vil ekki hafa barnið á brjósti, auk þess um leið og hiti kemur á geirvörturnar þá bregast þær rangt við og herpast saman. Þrátt fyrir að e´g hafi einnig ákveðið þetta fyrir síðustu meðgönguþá voru ljósmæðurnar ólmar í að ég myndi reyna. Það kostaði bara vanlíðan. Nú ætla ég að vera harðari við slíkri afskiptasemi, hehe. :) Hinsvegar þá var mér ráðlagt af ljósmóðurinni sem kom heim að til að stoppa mjólkurframleiðsluna þá ætti ég bara að klæðast íþróttatoppi. Það virkaði heldur betur ekki og fékk ég sýkingu fyrir rest og þurfti að fá sýklalyf eftir mikla verki og svefnleysi, sem er mjög alvarlegt fyrir flogaveika. Nú spyr ég hvort ég geti ekki fengið töflur strax eftir fæðingu og hvort það sé í lagi? Þykja þær almennt óæskilegar? Hvers vegna átti ég að klæðast íþróttatoppi frekar?

Heil og sæl, nú skalt þú undirbúa þig og vera búin að útvega þér lyfið fyrir fæðinguna. Þú þarf að ræða við lækni til þess og ég ráðlegg þér annaðhvort að tala við fæðingalækni ef þú hefur hitt fæð.lækni á meðgöngunni, svo er læknirinn sem stjórnar þinni meðferð við flogaveikinni eða þá heimilislæknir, einhver af þessum læknum ætti að geta hjálpað þér. Svo getur þú líka beðið ljósmóðurina þína í meðgönguverndinni að merkja það inn í mæðraskrána þína að þú ætlir ekki að gefa brjóst. Það er stundum mælt með að vera í íþróttatopp eða einhverju þéttu um bjóstin til að reyna að draga úr framleiðslu. Vertu svo bara ákveðin, þú ert búin að taka þessa ákvörðun að vel íhuguðu máli og byggir á fyrri reynslu. Gangi þér vel.