Styttur legháls á 32. viku

20.03.2012
Sælar og takk fyrir frábæran vef.

Mig langaði aðeins til að spyrjast fyrir um hvað telst eðlileg lengd á leghálsi við upphaf 32. viku? Ég er með styttan legháls (2 cm) og á að liggja fyrir næstu vikur en ég finn ekkert um hvað er eðlilegt þegar frumbyrja er gengin jafn langt og ég. Ekki gætuð þið sagt mér það?

Bestu þakkir, Margrét

Sæl Margrét!

Eðlileg lengd á leghálsi er 4-5 sm en hann hefur svo tilhneigingu til að styttast þegar líður á meðgönguna.
  • Við 16-20 vikna meðgöngu er eðlileg lengd leghálsins um 4,0-4,5 sm
  • Við 24-28 vikna meðgöngu er eðlileg lengd leghálsins um 3,5-4,0 sm
  • Við 32-36 vikna meðgöngu er eðlileg lengd leghálsins um 3,0-3,5 sm
Stytting á leghálsi getur verið vísbending um yfirvofandi fyrirburafæðingu. Niðurstöður einnar rannsóknar bentu til þess að ef legháls mældist styttri en 2,2 sm við 24 vkur væru um 20% líkur á fyrirburafæðingu og niðurstöður annarrar rannsóknar bentu til þess að ef legháls væri 1,5 sm eða styttri væru um 50% líkur á fyrirburafæðingu.

Vona að þú náir að ganga með barnið í nokkrar vikur í viðbót.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
20. mars 2012.