Ólétta og fósturmissi

30.03.2018

Ég tók óléttutest um daginn að kvöldi til og það kom virkilega ljós lína, og svo um nóttina byrjaði ég á rosalega miklum blæðingum sem var allveg í 5 daga sirka. Ég hringdi uppa deild og þær sögðu mér að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur því að þessar blæðingar væru merki um fósturmissi. ( Koma því fram að ég er alls ekki tilbúin til að eignast annað barn) en ég er búin að vera virkilega stressuð því að ég er búin að vera einhvað aum í leginu, og er núna með hausverk. Eru einhverjar miklar líkur á því að ég sé ólétt? Ætla að taka annað test til að vera 100% Og getur maður ekki fengið einhver svona eymsli í leg eftir fósturmissi? Ef það kemur jákvætt þá verð ég að fara í fóstureyðingu.. Hvernig virkar það? Hvert hringi ég?

Heil og sæl, líkurnar á því að þú sért ófrísk eru sáralitlar. Nú skalt þú bíða róleg í eina til tvær vikur endurtaka þá þungunarpróf og sjá hvað úr því kemur. Þú getur líka farið og hitt kvensjúkdómalækni og ráðfært þig við hann. Það kemur ekki fram í bréfinu þínu hve langt framyfir blæðingar þú varst komin. Ef svo ólíklega vill til að þú þurfir að fara í fóstureyðingu þá getur þú rætt við heimilslækninn þinn og beðið hann um að koma þér í farveg, einnig getur þú haft samband við göngudeild kvennadeildar LSH. Gangi þér vel.