Latur á brjósti?

07.04.2018

Góðan daginn! Ég er að lenda í basli með brjóstagjöfina með 3 mánaða strákinn minn, brjóstagjöf var alls ekki vandamál til að byrja með eftir að mjólkin kom. Var mjög lausmjólka og mjólkaði vel, hann þyngdist líka rosalega vel fyrstu mánuðina. Núna fór ég með hann í 3 mán skoðun og hann hafði aðeins bætt á sig 330gr síðan 9 vikna en talað er um 400gr að meðaltali og datt aðeins niður í kúrfunni. Hann drekkur vel á nóttunni þá er ég stútfull en seinnipartinn er hann brjálaður ef að flæðið kemur ekki strax og svo strax eftir það. Grunar að hann sé svangur, stundum er hann að hoppa af og á og stundum öskrar hann þegar ég er að reyna bjóða honum meira eftir fyrsta flæðið, gef núna alltaf bæði brjóstin líka. Er alveg ráðalaus þar sem mér finnst framleiðslan vera að minnka því hann er ekki að örva nóg, er samt aaalltaf að bjóða honum og er að taka mother love töflurnar og drekka te. Vil alls ekki hætta með hann á brjósti en veit ekki hvað ég get gert meira en það sem ég er að gera. Er þetta bara tímabil kannski? Fyrirfram þakkir

Heil og sæl, já þetta getur vel verið bara tímabil og þó að hann þyngist ekki eins vel núna og í upphafi þá er það allt í lagi, það er ekki hægt að þyngjast af sama hraða endalaust. Hafðu ekki áhyggjur af þessu 70 gr. sem vantar á meðaltalið. Hugsaðu vel um sjálfa þig, vertu róleg og afslöppuð og eins úthvíld og þú getur verið það er það besta þegar verið er að hugsa um brjóstagjöfina. Ef þú ert áhyggjufull og óróleg þá virka streituhormónin þannig að flæðið er ekki eins gott úr brjóstinu. Ef að seinniparturinn er mjög erfiður og þér  finnst þú ekki ráða við hann og eins og barnið sé mjög svangt og fái ekki nóg þá er engin dauðasynd að staupa hann með smávegis þurrmjólk. Ekki gefa í pela heldur úr litlu glasi. Kannski þarf þess ekki nema í eitt skipti til að fleyta ykkur yfir þetta erfiða tímabil. Gangi ykkur sem allra best.