Staða höfuðs í svefni

09.04.2018

Hæhæ og takk fyrir góðan vef. Sonur minn er 6 vikna og höfuðið hans snýr alltaf í sömu átt þegar hann sefur eða liggur. Við reynum að snúa því en hann er fljótur að fara á hina hliðina. Getur þetta haft áhrif á hvernig beinin í höfði gróa saman? Fyrst ég er að senda inn fyrirspurn þá eru hægðirnar hans rosalega fljótandi-líkist niðurgangi- er það eðlilegt? Hann er eingöngu á brjósti og drekkur vel

Heil og sæl, byrjum á hægðunum, já eins og þú lýsir þeim hljómar þetta sem mjög eðlilegar hægðir. Þú verður að venja barnið á að horfa til beggja hliða og skalt setja handklæði eða eitthvað annað við til að halda höfði hans í þátt átt sem hann vill ekki horfa. Í sumum tilfellum geta vöðvar í hálsi ungbarna orðið styttri ef þau horfa mjög mikið bara til annarrar hliðar og snúa sér til baka þegar þeim er stillt upp í hina áttina og í verstu tilfellum þarf sjúkraþjálfun. Ef þú ert ekki búin að fara í 6 vikna skoðun með hann skaltu ræða þetta þegar barnið fer í þá skoðun og vita hvað lækninum finnst. Oftast nær lagast þetta með því að foreldrar læra að gera æfingar með barninu. Ef barnið hefur nú þegar farið í 6 vikna skoðun ráðlegg ég þér að fá álit barnalæknis. Gangi þér vel.