Froðukenndar og slímugar hægðir

14.04.2018

Góðan daginn. Ég á strák sem er 8 vikna sem hefur síðastliðna viku verið mjög órólegur á næturnar sparkað og kvartað en virðist vera sofandi þannig það er eins og eitthvað sé að angra hann. Ef ég geri ekkert eins og að gefa honum snuð eða rugga honum vaknar hann á endanum og fer að gráta. Hann sefur fyrsta lúrinn yfirleitt vel svona 3-4 klst en er síðan órólegur restina af nóttinni. Í sömu viku fór að koma slím með hægðunum hans og eitt skipti voru þær mjög froðukenndar eins og mjólkufroða fyrir kaffi. Hann er einungis á brjósti og hafa hægðirnar hingað til verið gular kotasæluhægðir. Hann þyngist vel og drekkur á 1-3 klst fresti en mér finnst hann stundum vera pirraður núna á brjóstinu. Ætli þessi óróleiki tengist breytingum á hægðunum og gæti það haft eitthvað að gera með brjóstamjólkina?

Heil og sæl, hugsanlega er þetta eitthvað sem gengur yfir á nokkrum dögum. Þú getur rætt þetta í ungbarnaverndinni þegar þú ferð með barnið í níu vikna skoðun ef þetta verður ennþá vandamál. Ef þér finnst of langt að bíða þar til í ungbarnavernd getur þú rætt málið  við heimilislækninn þinn. Gangi þér vel.