Spurt og svarað

19. febrúar 2014

Sulfur burps

Hæhæ
Ég er gengin 36 vikur og hef undanfarið verið að upplifa ferlega ógeðslega ropa. Bragðið/lyktin minnir mig á úldin egg og miðað við það sem ég hef fundið á netinu er þetta kallað Sulfur burps. Ég finn ekkert um þetta á íslensku og þætti vænt um ef þið gætuð sagt mér hvað veldur þessu og hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir þetta?
Takk fyrir frábæran vef!
Komdu sæl
Það sem veldur því að ropinn lykti eins og úldin egg er vegna vetnissúlfíðs. Ef maður borðar fæðutegundir sem hafa sulfur prótein (brennisteinsprótein) getur maður upplifað ropa sem lyktar eins og úldin egg. Örverur í meltingarveginum losa um þessi prótein og valda losun vetnissúlfíðs.
Samkvæmt því sem ég hef skoðað er þetta algengt hjá barnshafandi konum. Á meðgöngu hægist á meltingarstarfseminni og getur það verið ástæða þessa ropa. Ef þessu fylgir niðurgangur eða uppköst ætti að hafa samband strax við lækni.
 
Þær fæðutegundir sem innihalda brennistein eru meðal annars svínakjöt, rautt kjöt, mjólkurvörur, ákveðnar tegundir grænmetis eins og aspas og spergilkál, sultur, laukur, sinnep, steinselja, sætar kartöflur, avocado, bananar, ákveðnar tegundir bauna, vatnsmelónur og te og kaffi svo eitthvað sé talið upp. Einnig geta ákveðin lyf innihaldið brennistein.
 
Líklegasta skýringin á þessu ástandi er meðgangan hjá þér og ætti að lagast eftir hana. Hægt er að prufa nokkur ráð til þess að losna við þetta. Meðal annars er að forðast að drekka kolsýrða drykki, borða vel af fersku grænmeti og ávöxtum og drekka nóg af vökva. Einnig ætti að forðast að borða mikið sælgæti, kökur og ís.
 
Ef þetta heldur áfram eftir meðgönguna geta verið aðrar ástæður sem valda þessu og er þá hægt að ræða það við lækni.
 
Ég vona að þessar upplýsingar hjálpi og gangi þér vel.

 
Með kveðju,
Súsanna Kristín Knútsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
19. febrúar 2014.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.