Vil ekki missa fóstur aftur..

06.05.2018

Sælar ljósmæður. Fyrir um tveimur árum verð ég óvænt ólétt en missi fóstur síðan á áttundu viku. Síðan þá hef ég og maðurinn minn reynt að verða ólétt með ekkert alltof góðum árangri. Í janúar á þessu ári frjógaðist egg hjá okkur en það festi sig ekki samkvæmt lækni. Núna fyrir nokkrum dögum fékk ég jákvætt próf og ætti því að vera komin um 4 vikur. En það sem ég er að reyna að spyrja að er, hvort það séu þá meiri líkur að ég missi þetta fóstur vegna minnar sögu? Og er eitthvað hægt að gera til að halda fóstrinu? Ég er einnig greind með pcos ef það hefur áhrif..

Heil og sæl, það er algengt að missa fóstur og líka að fósturvísir taki sér ekki bólfestu í fyrstu tilraun. Það er ekkert í því sem þú segir í þessu bréfi sem bendir til þess að þú getir ekki gengið farsællega með barn. Ég ráðlegg þér að vona það besta og reikna með því að allt muni ganga vel. Ef þú ert ekki þegar byrjuð að taka fólínsýru og d vítamín þá er gott að byrja að gera það núna. Gangi þér vel.