Ráð til að fara ekki af stað

08.05.2018

Góðan daginn, Mig langar til þess að forvitnast hvort það séu til einhver ráð til að "fara ekki af stað". Er gengin rúmlega 36 vikur með fyrsta barn og maðurinn minn verður ekki heima fyrr en ég verð gengin rúmlega 39 vikur svo ég er smá stressuð að hann missi af fæðingunni. Er eitthvað sem gott er að forðast, eða til einhver ráð til þess að reyna ganga fullar 40 vikur? Datt í hug að spurja þar sem ég hef heyrt fullt af ráðum til að koma sér af stað en engin ráð fyrir okkur fáu sem viljum endilega ganga 40 vikur.

Heil og sæl, langflestar konur fæða í kring um 40 vikur svo þú þarft ekki að hafa þungar áhyggjur. Nei það er ekkert sem getur komið í veg fyrir að þú farir af stað ef að líkami þinn er tilbúinn. Það er enginn sem veit nákvæmlega hvaða samspil það er sem setur fæðinguna af stað. Lifðu bara þínu daglega lífi og hugsaðu með þér að þú ætlir alls ekki að fæða fyrir settan dag. Stundum er eins og smáviljastyrkur geti spilað inn í að fara ekki af stað. Mundu að það er minni líkur en meiri á því að þú farir amk. 40 vikur. Gangi ykkur vel.