Sund og sól

20.04.2015

Ef ég ætla stunda sund mikið á meðgöngunni og þar sem sumarið er rétt handan við hornið (vonandi) þá var ég að hugsa hvort ég ætti frekar að sækja innilaugar? Er sólin í of miklu magni slæm fyrir mig? Er komin 21v og 2d :)


Heil og sæl og mér líst vel á sundið hjá þér. Nei sólin er ekki slæm nema að þú verður að hafa í huga nokkrar varúðarreglur. Það er ekki gott fyrir neinn að sólbrenna og húðin er stundum viðkvæmari á meðgöngu. Það er því ráðlegt að nota sólarvörn einnig vegna þess að á meðgöngu geta stundum orðið litabreytingar í húðinni á meðgöngunni sem stafa af hormónum. Það er möguleiki að fá óreglulega dökka bletti í andlitið og/eða dökka línu á magann, þessir dökku blettir verða enn meira áberandi í sólinni. Hafðu samt í huga að það eru ekki nærri allar konur sem finna fyrir þessu. Útivist og sund er góð blanda fyrir alla og barnshafandi konur þar með taldar. Gangi þér vel.  

Bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
20. apríl 2015