Spurt og svarað

05. nóvember 2012

Sund og tannlæknir á fyrstu vikum meðgöngu

Góðan dag og takk fyrir frábæran vef.
Ég er erlendis og komin 7 vikur á leið og fór í mína fyrstu skoðun núna í vikunni. Læknirinn sagði að allt liti vel út og fór svo að tala um hvað ég mætti ekki borða og svona bara þetta venjulega. En síðan ráðlagði hann mér að fara hvorki í bað né sund fyrstu 4 mánuðina vegna þess að leghálsinn getur mýkst upp eða eitthvað svoleiðis! Einnig mælti hann á móti því að fara til tannlæknis fyrr en eftir 4 mánuði! Nú er ég búin að fletta í gegnum allt hérna á síðunni og finn ekkert sem styður við þetta. Eru þetta eitthvað skrítnar ráðleggingar hjá honum?
Kveðja, spurningamerkiSæl
Ég er ekki hissa að þú sért eitt spurningamerki, ég er nú sjálf svolítið hissa á þessum ráðleggingum sem þú hefur fengið. Samkvæmt þeim upplýsingum sem unnið er eftir á Íslandi er ekkert sem mælir gegn því að fara reglulega í skoðun til tannlæknis hvenær sem er á meðgöngunni. Líkur á geislun eru hverfandi þar sem blýsvunta er notuð til að verja þann sem er verið að mynda og deyfilyfin sem notuð við viðgerðir eru talin hættulaus fyrir fóstrið. Það eina sem mér dettur í hug er möguleikinn á sýklalyfjum eða verkjalyfjum eftir tannaðgerðir, það ætti t.d. að bíða með að láta fjarlægja jaxla þar til eftir að barnið er fætt vegna möguleika á því að verkjalyfja eða sýklalyfja sé þörf eftir slíka aðgerð.
Það er jafnvel mælt með því að fara til tannlæknis snemma á meðgöngu meðan fóstrið er ekki orðið svo stórt að það sé óþægilegt fyrir konuna að liggja legni í tannlæknastólnum, sérstaklega ef langt er liðið frá síðustu skoðun.
Varðandi sund og bað ráðleggingarnar er ég líka hissa. Almennt er sund talið góður kostur á meðgöngu þar sem auðveldara er að hreyfa sig í vatni og stundum er sund eina hreyfingin sem konan getur stundað með góðu móti á meðgöngu. Samkvæmt nýlegri rannsókn (2010) sem ég las eru ekki talin nein tengsl milli þess að stunda sund á meðgöngu þ.m.t. á fyrstu 12 vikunum og þess að barn fæðist fyrir tímann og ekki voru meiri líkur á fæðingargöllum samkvæmt þeirri rannsókn.
Það sem ætti hinsvegar að forðast eru mjög heit böð og heitir pottar. Mörgum konum finnst gott að slaka á í baði á meðgöngu og ekkert sem mælir gegn því, það eina sem þarf að passa er að baðið sé ekki svo heitt að þér verði ómótt og því mikilvæt að hlusta á líkamann.


Gangi þér vel,

Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
5. nóvember 2012
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.