Sushi

13.10.2006

Komið sælar!

Ég er komin 9 vikur og sef varla fyrir löngun í sushi. Ég held mikið uppá þessa matargerð en vegna þess sem ég hef lesið hér á síðunni varðandi hráan lax og bakteríu sem hefur fundist í honum hérlendis hef ég alveg sleppt því að borða sushi. En er það allur hrár fiskur sem þarf að forðast? Er hvítur hrár fiskur líka varhugaverður? Hvað með surimi (krabbalíki)? Er þá ekki allavega óhætt að borða grænmetissushi eða er hætta á einhverri krossmengun við gerð þess?

Takk kærlega fyrir æðislega og upplýsandi síðu, Minibumba í sushiþörf ;)


Sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Ég skil þig vel að þig langi í sushi það er hrikalega gott ;-)

Við höfðum samband við Grím Ólafsson, sérfræðing á matvælasviði Umhverfisstofnunar og hann hafði þetta fram að færa:

„Varðandi hráan fisk almennt þá er alltaf hætta á örverumengun, með tilheyrandi matarsýkingum. Það sem er sérstaklega varasamt fyrir barnshafandi konur er Listeríu sýking, en hún getur valdið fósturláti. Listería er mjög algeng í laxi en finnst einnig öðrum bolfiski. Það ber að taka fram að Listería er ekki náttúrulega í fiski, hún er jarðvegsbaktería en mengast við meðhöndlun á fiski. Auk þess er notaður skelfiskur, túnfiskur og lúða. Stórir ránfiskar eins og tún og lúða geta innihaldið mikið af uppsöfnuðum þrávirkum klifrænum efnum (díoxín, PCB og varnarefni) auk þungmálma. Skelfiskur er almennt útsettur fyrir örverumengun og þörungaeitur.

Grænmetis-sushi þekki ég ekki. Er ekki sushi hrá fiskur? Passa þarf krossmengun við fiski sushi. Varðandi krabbalíki, það er soðin vara og ætti því að vetra laus við örverur. Passa þarf krossmengun hér ef verið er að vinna með hráan fisk jafnframt.“

Ég held að þú verðir bara að bretta upp ermarnar og fara að gera þitt eigin grænmetis-sushi því þannig getur þú best tryggt þitt eigið öryggi og hver veit nema þú verðir sushi meistari áður en langt um líður! Samkvæmt þessum upplýsingum getur þú notað krabbalíkið í þitt sushi.

Yfirfarið 28.10.2015