Spurt og svarað

23. júní 2018

Brjóstagjöf erfiðari á kvöldin og mataræði móður

Sælar og takk fyrir frábæran vef! Mig langaði að spyrja ykkur út í brjóstagjöf. Ég á einn 9 vikna dreng sem hefur verið eingöngu á brjósti frá fæðingu. Hann fæddist stór, um 18 merkur, og hefur verið að þyngjast mjög vel frá fæðingu. Frá því að hann fæddist hefur hann verið mjög vær og góður á daginn og nóttunni. Á kvöldin verður hann oft frekar óvær og vill láta halda á sér og helst labba með sig. Hann er ekki beint grátandi allan tímann, tekur nokkur org sem lagast oftast ef maður labbar með hann. Það sem einkennir kvöldin líka er hversu illa brjóstagjöfin gengur oft. Hann tekur oft illa brjóstið og sýgur nokkur skipti og kippir sér svo frá brjóstinu oft hálf öskrandi. Oft er hann orðinn mjög æstur þegar hann hefur verið að reyna að sjúga brjóstið og þarf að labba með hann um gólf í smá tíma til að róa hann. Samt er hann með mikla sogþörf og tekur snuð strax þegar það er sett upp í hann og sýgur það af áfergju. Ég hef prófað að mjólka mig og þegar hann er í þessum "ham" prófað að gefa honum þá mjólk í pela og hann tekur hann strax og klárar það í einum rykk. Hann virðist vera að fá nóg miðað við þyngdaraukningu og svo vætir hann 6-8 bleyjur á sólarhring. Mig langaði að spyrja ykkur hvort þetta væri eðlileg hegðun við brjóstagjöf miðað við aldur? Annað sem ég vildi spyrja um er mataræði móður. Ég hef skoðað alla pósta sem hafa verið sendir hingað inn varðandi mataræði móður og reynt að átta mig á hvort mataræðið mitt hafi áhrif á hann. Það sem mig langaði einna helst að spyrja um er einkenni mjólkuróþols hjá svona ungum börnum? Einnig vildi ég spyrja ykkur hvort sterkur matur sem ég borða (eins og hot sauce og þannig) gæti skilað sér í brjóstagjöfina? Að lokum langar mig að spyrja hvort matur sem veldur loftmyndun í meltingarvegi hjá móður (eins og baunir, laukur og þannig) gæti valdið loftmyndun hjá barni í gegnum brjóstamólk? Með fyrirfram þökk!

Heil og sæl, fyrst barnið er svona óvært á sama tíma sólarhringsins alltaf dettur mér í hug að hann þjáist hugsanlega af ungbarnakveisu. Ungbarnakveisa hrjáir oft börn sem eru á hans aldri (oftast liðið hjá um 12 vikur) og þetta eru gjarnan börn sem drekka og þyngjast vel. Ekkert finnst að þeim við skoðun og þetta lagast af sjálfu sér. Það getur þó verið að þú mjólkir aðeins minna á kvöldin en það getur þó ekki verið mikið þar sem hann þyngist og pissar vel. Ef barnið þitt er kveisubarn er lítið hægt að gera annað en þið eruð að gera nú þegar, ganga um gólf og reyna að láta honum líða sem best. Það góða er að þetta líður hjá líklega á næstu þremur vikum. Þú getur líka ráðfært þig við ungbarnaverndina í 9 vikna skoðuninni ef þú ert ekki búin að fara með barnið í hana. Ef að þú ert að hugsa um eigið mataræði og hvaða áhrif það hafi hugsanlega á hann þá eru það oftast mjólkurvörur sem byrjað er að taka út úr mataræði móður. Mér finnst ólíklegt að það sé eitthvað sem þú borðar þar sem hann er bara leiður á kvöldin, ef þetta væri þitt mataræði væri hann alltaf vansæll þegar þú hefðir borðað eitthvað sem hann þolir ekki, ekki bara á kvöldin. Gangi ykkur vel 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.