Spurt og svarað

03. janúar 2011

Svefnleysi vegna verkja

Ég vil byrja á að þakka fyrir gagnlegan og góðan vef.

Ég er gengin tæpar 37 vikur með mitt fyrsta barn. Meðgangan hefur gengið vel, en ég hef þurft að minnka við mig vinnu frá 31. viku vegna grindargliðnunar, en verkurinn var þá aðallega í lífbeini. núna seinustu vikur hefur sá verkur lagast, en nú eru mjaðmaverkir aðallega að hrjá mig, sérstaklega þegar ég ligg upp í rúmi í lengri tíma.  Ég sef orðið mjög illa þar sem ég finn enga stellingu til að sofa í.   Ekki get ég legið maganum af augljósum ástæðum og heldur ekki á bakinu (svaf hingað til best á bakinu). þegar ég ligg á hliðinni verkar mér svo í mjaðmirnar, nota ég bæði kodda milli fótanna og undir magan, og bara allt í kring til að reyna að minnka álag á grindina.  Næturnar enda yfirleitt með að ég legg mig í hægindastól þar sem enginn svefnstelling virðist duga og er ég orðin ansi syfjuð og orkulaus.  Mig langar því að spyrja ykkur, vitið þið um eitthvað gott ráð svo ég geti legið á bakinu án þess að fá svima og hausverk? Hafið þið einhver góð ráð til að draga úr mjaðmaverkjum?

Kærar þakkir. Komdu sæl.

Ráð við mjaðmarverkjum eru í raun bara eins og ráð við grindarverkjum, púðar, belti, fara vel með sig o.s.frv. sem þú finnur hér á síðunni hjá okkur.

Ef þú getur ekki legið á bakinu væri kannski ráð að rúlla upp handklæði og setja undir bakið öðru megin þannig að þú liggur ekki alveg á hliðinni en heldur ekki flöt á bakinu.  Eins gætir þú prófað að hækka undir bakinu með púðum eða teppum svo þú hálfsitjir.

Það er þreytandi og verkir koma frekar þegar maður er lengi í sömu stellingunni eins og yfir nóttina.  Því getur reynst nauðsynlegt fyrir þig að fara framúr og breyta til og hreyfa þig aðeins.  En það er þá líka nauðsynlegt að hvíla sig á daginn og leggja sig jafnvel tvisvar til þrisvar til að fá hvíld.  Mundu að þú hvílist líka þótt þú sofnir ekki.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur. 
3. janúar 2011.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.