Spurt og svarað

07. júní 2007

Svefnlyf á meðgöngu

Ég er búin að þjást af mjög miklu þunglyndi, kvíða og átröskun í um 6 ár. Ég á svo ofboðslega erfitt með svefn vegna kvíða. Ég er á þunglyndislyfjum og var látin minnka skammtinn þegar ég varð ólétt en mér fór að líða svo ofboðslega óbærilega illa að það þurfti að auka skammtinn hjá mér aftur. En það er ekki alltaf nóg. Ég hef undanfarin ár tekið meðal annars Sobril, Seroquel, Stillnocht og Immovane til að geta sofið. Það stendur í öllum bæklingunum við þessum lyfjum að maður eigi að forðast að taka þau á meðgöngu sem ég er að gera. En stundum bara líður mér svo skelfilega illa að mér finnst ég ekki geta lifað nema ég fái einstaka sinnum hjálp til að róa mig fyrir svefninn. Er eitthvað af þessum lyfjum sem gæti verið skárra en önnur svefnlyf á meðgöngunni? Ef ég get ekki án þess verið að taka eitthvað einstaka sinnum? Ég hef nokkrum sinnum fengið mér eins og einn tvo bjóra til að slaka á þegar ég hef verið gjörsamlega að deyja úr vanlíðan. Ég vil alls ekki gera það, er ekki skárra að taka eins og hálfa svefntöflu? Ég er búin að prófa allt þetta náttúrulega, fara í göngutúra og bað og allt það, en það hjálpar mér ekki, fæ bara kvíðakast í baðinu eða göngutúrnum.

Takk kærlega.


Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Málið er nú ekki svona einfalt. Mér finnst þú þurfa að ræða þetta við lækninn þinn og ljósmóðurina í mæðraverndinni og segja þar frá þessari líðan þinni. Það er alls ekki gott ef þú þarft að fara að fá þér áfengi til að slaka á fyrir svefninn. Tel þó heppilegra að þú takir lyf þó svo að þau séu ekki æskileg hvorki fyrir þig né barnið, en stundum eru engin önnur ráð sem duga, en þetta þarftu alfarið að ræða við lækni.

Gangi þér vel og farðu vel með þig - það er ekkert að því að spyrja ráða.

Kær kveðja,

Sigrún E. Valdimarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
7. júní 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.