Brjóstastífla og svangt barn

09.09.2018

Hæhæ, ég er komin á sýklalyf þar sem ég fékk stíflu í annað brjóstið. Ég var búin að vera setja heita bakstra á brjóstið, leggja barnið ört á brjóst og nudda það og pumpa eftir á en ekkert virkaði heima. Ég fór í mjaltarvél uppá deild með heitum bakstri og það losnaði heldur ekki um stíflurnar. Ég var örugglega ríflega klukkutíma í mjaltarvélinni og það komu 50-60 ml, barnið er 2 vikna. Nú er það þannig að ég byrja á að leggja hann á stíflaða brjóstið og hann sýgur þar til hann sofnar á brjóstinu, hann endist mjög stutt. Þegar ég tek hann af grætur hann og vill meira og þetta endurtekir sig. Þetta endar þannig að ég er að leggja hann oft á bæði brjóstin svo að hann verði sáttur og saddur. Þá er ég ekki viss hvort hann tæmi hvorugt brjóstið...ég er orðin hrædd um að ekkert muni virka til að losa stíflurnar, er möguleiki á að slíkt gerist og hvað gerist þá í framhaldinu? Getur maður endað á að missa mjólkina?

Heil og sæl, vertu alveg róleg, það getur verið mjög slæmt að fá brjóstastíflu á þann hátt að það er sárt og geta fylgt því talsverð veikindi. Ef að lagt er oft og reglulega á brjóst og þú ert komin á meðferð þá getur þú náð þér alveg að fullu. Þetta getur verið erfitt á meðan þessu stendur. Ég ráðlegg þér að ráðfæra þig við ungbarnaverndina ef þú ert í vafa hvort barnið fær nóg eða ekki þá er besta leiðin að láta vigt barnið. Gangi ykkur vel.