Spurt og svarað

27. desember 2012

Svefnvandamál

Góðan daginn.
Ég er komin 30 vikur á leið og núna á ég mjög erfitt með að sofna, ég hef átt erfitt með að sofna núna síðustu tvo eða þrjá mánuðina útaf miklum brjóstsviða og svo bætist það við í byrjun des að ég fór að fá held ég samdráttar verki eða fyrirvara verki sem eru svolítið sárir og standa yfir í svona kannski 5 sekúndur og koma með stuttu en samt óreglulegu millibili og eru bæði á daginn og á nóttunni þannig að bæði þetta og brjóstsviðin hafa gert það að verkum að ég hef átt erfitt með að sofna núna undanfarið, en hef samt náð að sofna þótt seint sé, en núna í nótt þá bættist það ofaná að hitakerfið í mér fór í klessu þannig mér varð of heitt til að sofna og ég náði bara alls ekki að sofna neitt í nótt og er núna geðveikt þreytt en næ samt ekki að sofna, og ég veit að svefn er mjög mikilvægur á meðgöngunni til að fá hvíld og ég er svolítið hrædd um það að það verði eins með þessa nótt, að ég muni bara alls ekki ná að sofna. Ég var að spá hvort það sé til eitthvað gott ráð við þessu eða hvað ég geti gert.Sæl
Til hamingju með þungunina. Svefnleysi er tiltölulega algengt vandamál á meðgöngu, sérstaklega í lok meðgöngu þegar álag á líkama móðurinnar er sem mest. Best er að meðhöndla undirliggjandi vandamál sem eru að valda svefnleysinu eins og til dæmis brjóstsviðann.

Nú veit ég ekki hvaða ráð þú hefur reynt við brjóstsviðanum en mörg húsráð eru til við brjóstsviða eins og að sleppa lauk, tómmat, pasta, hvítlauk og sterkum eða mikið krydduðum mat. Einnig að forðast þungar máltíðir á kvöldin. Ef einföld húsráð duga ekki er óhætt að prófa magasýrulækkandi lyf eins og Rennie eða Tums, einnig hafa læknar stundum ráðlagt að nota Omeprazol.

Varðandi samdráttaverkina mæli ég með að þú fáir tíma í mæðraverndinni í skoðun, oftast eru þeir saklausir og lítið hægt að gera við þeim en stundum er einhver undirliggjandi orsök sem þarf að meðhöndla eins og sýking. Ef þú ert enn að vinna er alveg spurning hvort þú ættir að minnka við þig vinnuna, oft lagast samdráttarverkir við hvíld. Einnig er gott að huga að því hvort það sé mikil streita í þínu umhverfi og hvort þú getir létt á þér ef þarf.

Varðandi svefnleysi almennt er slökun oft aðal meðferðin og getur því verið gott að fara í gott bað fyrir svefninn, fá nudd á fætur eða leggja heitan bakstur við bakið, einnig hefur kalk og magnesíum blanda fyrir svefninn reynst mörgum konum vel svo og að taka parasetamol fyrir svefninn af og til.

Ég ráðlegg þér að ræða þessi vandamál nánar við þína ljósmóður í mæðravernd og fara vel yfir málin með henni.

Gangi þér vel.

Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
27. desember 2012

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.