Sveppasýking á geirvörtum á meðgöngu

11.11.2007

Sælar ljósmæður!

Málið er að ég er gengin 34 vikur af þriðja barni. Eftir fæðingu annars barns fékk ég tvisvar sveppasýkingu í geirvörturnar og er sem sagt komin aftur með hana. Mig langaði að vita hvað veldur því að hún er að taka sig upp aftur. Getur það verið mataræðið?  Mér var ráðlagt að hætta að borða sykur og helst ger og mjólkurvörur. Annað sem mig langaði að vita er hvort að ég megi fara áfram í sund er nefnilega í meðgöngusundi vegna grindarverkja? Hvernig er vanalega meðferðin við sveppasýkingu á meðgöngu? Ég fékk daktakort krem sem ég á að bera á geirvörturnar allaveganna til að byrja með til að vita hvort að það virki.  Er einhver önnur meðferð sem mælt er með?Sæl og blessuð.

Það er ekki gott að segja af hverju þú ert að fá sveppasýkingu aftur núna. Það eru auðvitað allir með sveppi á sér en af hverju þeir fjölga sér og valda vandræðum meira hjá sumum en öðrum getur verið flókið mál að reyna að útskýra og meira að segja ekki alltaf hægt. Það getur hjálpað að margra mati að bæta mataræðið þannig að endilega láttu á það reyna. Dactacort er ágætt við sveppasýkingum á meðgöngu en það eru til mörg önnur sveppalyf. Aðalatriðið er að það sé vel virkt gegn candida albicans sveppum en það er sú tegund sveppa sem er langalgengust í sýkingum á geirvörtum. Ég veit ekki með sundið. Mér finnst slæmt ef þarf að trufla það sem getur hjálpað þér mikið við grindarverkjunum en á móti kemur að sundlaugar eru sá staður sem auðveldast er að smitast af sveppum. Þú verður því að vega og meta og komast að niðurstöðu.

Vona að vel gangi.


Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. nóvember 2007.