Meltingartruflanir

05.10.2018

Góðan dag og takk fyrir frábæran vef. Ég er gengin um 7 vikur og er búin að vera tæp í maganum fyrst með harðlífi og svo niðurgang núna. Mér líður samt ekki illa en finn þegar ég er búin að vera með niðurgang að mig vantar vökva og er dugleg að drekka vatn. Er algengt að konur séu svona á meðgöngu eða þarf ég að láta athuga þetta eitthvað hjá mér? Ég er yfirleitt tæp í maganum (fyrir meðgöngu) og sumar matvörur fara illa í mig eins og til dæmis mjólkurvörur og feitur matur. Mér finnst ég bara búin að vera eitthvað extra viðkvæm síðustu 3 vikur. Bestu kveðjur :)

Heil og sæl, það er ekki óalgengt að finna fyrir breytingum í meltingarfærum á meðgöngunni. Sjáðu til hvernig málið þróast og ef þetta er eitthvað sem þér finnst að sé meira en góðu hófi gegnir ráðlegg ég þér að ræða málið við þá ljósmóður sem þú færð í meðgönguverndinni. Gangi þér vel.