Fitumagn í brjóstamjólk - fyrirspurn

30.10.2018

Sælar, Kannski kjánaleg spurning en ég læt vaða. Er einhver leið til þess að auka firumagn í brjóstamjólk? Ég er vel að mér í flestu sem tengist brjóstagjöf og þekki þetta með samsetningu brjóstamjólkurinnar (þunn fyrst og næring og fita þegar líður á gjöfina.) En mér er fyrirmunað að skilja hvernig sumar mæður grennast hratt og vel á meðan þær eru með barn á brjósti (og börnin oftast svo feit og fín) á meðan aðrar (ég td) fitna á þessu tímabili og barnið slank (framleiðsla brjóstamjólkur hjá mér er samt fín og barnið þyngist 150-200 gr á viku)

Heil og sæl, já þetta getur verið ráðgáta. Barnið þitt þyngist samt alveg ágætlega. Ég kann ekki ráð til að auka magn fitu í mjólkinni en þó að margar konur grennist við brjóstagjöfina þá er það samt svo að talsverður hópur  kvenna þyngist á meðan brjóstagjöf stendur. Það er hormónatengt og sumir hafa tengt þetta svefnleysi, þreytu og streitu móður. Þá fer líkaminn að framleiða streituhormón og þau eru fitandi. Svo að það er best að reyna að vera streitulaus, útsofinn og borða hollan mat í hófi regulega. Þetta hljómar mjög einfalt en er kannski ekki svo mjög einfalt í útfærslu samt. Gangi þér vel.