Spurt og svarað

29. desember 2008

Svimi

Góðan daginn!

Mig langaði aðeins að forvitnast. Ég er búin að fletta upp fyrirspurnum um svima hérna á síðunni og þá er alltaf talað um að svimi séu einkenni á byrjun meðgöngunnar. Nú hef ég ekki fundið til svima né fengið svimaköst á minni meðgöngu fyrr en undanfarnar kannski tvær vikur (gengin 27 vikur). Hver getur orsökin verið? Ég fer yfirleitt í mjög heitar sturtur og finn að ég þoli það ekki lengur. Ég fæ smá svima þó að ég fari í kaldari sturtur og virðist vera frekar lengi að jafna mig á eftir. Einnig hef ég verið að fá svimaköst  þegar að ég hef bara staðið og í raun ekki verið að gera neitt. Engar snöggar hreyfingar eða ofreynsla.

Með fyrirfram þökk

 

 

Sæl!

Svimi er algengt fyrirbæri á meðgöngu. Helstu orsakirnar fyrir svima er eðlileg æðaútvíkkun sem verður hjá verðandi móður á meðgöngunni og auknu rúmmáli vökva í æðum. Þegar vökvarúmmál í æðum eykst þá lækkar blóðrauði í líkamanum oftast smávegis sem getur valdið því að konur finni fyrir svima. Þetta finna konur oft fyrir í auknu mæli á öðrum þriðjungi meðgöngunnar og jafnvel í upphafi þess þriðja eins og hjá þér. Þegar þú reynir á þig og jafnvel þegar þú einungis stendur upprétt getur þú fundið fyrir æðaúvtíkkun sem gerir það að verkum að það er eins og allt blóð ætli niður í fætur og þig svimar. Það er möguleiki á að blóðþrýstingurinn hjá þér sé heldur lágur eða að blóðrauði þinn sé helst til of lágur. Þetta getur þú beðið ljósmóðirna í mæðraverndinni að athuga fyrir þig.
Það sem þú þarft að gæta sérstaklega að er að drekka nægan vökva og að borða járnríkt fæði.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
29. Desember 2008.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.