Spurt og svarað

18. júlí 2009

Svínaflensan (H1N1) og meðganga

Góðan daginn!

Ég hef verið að velta fyrir mér þessari svínaflensu. Nú er ég að fara að eiga mitt þriðja barn um miðjan september og hef hingað til ekki óttast svínaflensuna eða aðrar flensur þar sem ég er mjög hraust og alls ekki flensusækin. Flensan á að ná hámarki í haust þegar barnið á að koma í heiminn, á ég að þurfa að óttast eitthvað? Mega ófrískar konur fara í bólusetningu eða megum við taka inn Tamiflu lyfið ef ske kynni að maður smitist? Á að gera einhverjar ráðstafanir varðandi barnið þegar þar að kemur ef ég slepp fram að fæðingu?

Með fyrirfram þökk.

 


 

Sæl og blessuð!

Því miður er enn ekki komið bóluefni við svínaflensunni og það verður væntanlega ekki komið áður en þú fæðir barnið þitt. Líklega verður barnshafandi konum ráðlagt að fá bólusetningu þegar hún verður fáanleg. Barnshafandi konur og konur með barn á brjósti ættu eingöngu að taka veirulyf (Tamiflu eða Relenza) í samráði við lækni, enda er það lyfseðilsskylt hér á landi.  Lyfið hefur ekki verið rannsakað að fullu m.t.t. öryggis fyrir barnshafandi konur og konur með barn á brjósti en oft getur ávinningur þess að taka inn lyf vegið þyngra að hugsanleg áhætta.

Það er mjög mikilvægt að leita læknis ef grunur er um að svínaflensa sé á ferðinni en einkenni geta verið hósti, særindi í hálsi, hnerri og hiti. Einnig getur fólk fundið fyrir beinverkjum, höfuðverk, slappleika, uppköstum og niðurgangi.

Það er auðvitað mikilvægast að reyna að koma í veg fyrir smit með öllum hugsanlegum ráðum - og hér eru nokkur ráð:

  • Þvo sér oft og vel um hendur, ef til vill nota handspritt
  • Takmarka umgengni við veika einstaklinga
  • Veikir einstaklingar haldi sig heima - nema ef þeir þurfa að leita læknis (fari ekki til vinnu eða innan um aðra)
  • Veikir einstaklingar haldi fyrir munninn þegar þeir hósta eða hnerra (helst með bréfþurrku sem hent er eða hósti í innanverðan olnboga til að takmarka dreifingu sýkla). Ef hóstað er í lófann þarf að þvo hendur strax á eftir
  • Forðast fjölmenni ef svínaflensan breiðist út hér á landi

Ég vona að þetta svari þér og eflaust mörgum öðrum sem eru að velta þessu fyrir sér. Við munum svo setja inn meiri upplýsingar og ráðleggingar þegar þær berast en nánari upplýsingar er einnig að finna á vef Landlæknisembættisins.

Sjá einnig bækling Landlæknisembættisins og Ríkislögreglustjóra; Munum eftir inflúensunni - ráðleggingar um smitvarnir.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
18. júlí 2009.

Heimild: http://www.cdc.gov/h1n1flu/clinician_pregnant.htm

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.