Fæðingarþunglyndi

01.12.2018

Hæhæ. Mjög góður vefur sem þið hafið hérna. Núna á ég 3 vikna yndislega litla stelpu sem ég fæ ekki nóg af, ég leyfði mér samt ekki að tengjast henni á meðgöngu eða fyrstu dagana efti fæðingu vegna hræðslu um að hún myndi deyja en það gerðist við fyrsta barn móður minnar. Mig grunar að ég sé komin með fæðingarþunglyndi. Það bitnar samt ekki gagnvart barninu heldur sjálfan mig. Er mjög upp og niður í skapinu, hef haft litla sem enga lyst alveg frá fæðingu, þarf mörgum sinnum á dag að halda aftur grátköstum, fæ mikinn kvíða af of til yfir að eitthvað kæmi fyrir stelpuna, hugsa hvað gerist ef ég myndi missa hana í gólfið og fæ mikið samviskubit gagnvart kærasta mínum, að ég sé ekki að veita honum nógu mikla athygli. Ég öfunda allar þær konur upp á deild því mér fannst svo gott að vera þar vegna hversu næs ljósmæðurnar voru og gríp mig oft hugsa um hvað ég gæti gert til að fá að leggjast aftur inn. Er búin að fá að byðja um tíma hjá sálfræðingnum sem ég var hjá á meðgöngu vegna kvíðaröskunar en hef ekki fengið svar enn. Á ég að vera að pæla meira í þetta eða er þetta að stefna í þunglyndi? Fyrirfram þakkir :)

Heil og sæl, til hamingju með barnið þitt. Það eru ekki nema þrjár vikur síðan þú fæddir þannig að þú ert í raun "sængurkona" ennþá. Líkami þinn er enn að að komast í hormónalegt jafnvægi og þú að ná þér eftir fæðinguna. Hins vegar er rétt af þér að huga að líðan þinni og það er gott að þú sért búin að leggja inn beiðni hjá sálfræðingunum. Í millitíðinni skaltu ræða við fjölskyldu og góða vini eða aðra þá sem gætu stutt þig og ég ráðlegg þér að segja kærastanum þínu frá því hvernig þér liður. Ef þú jafnar þig ekki fljótlega og ferð að líða betur þá ráðlegg ég þér að ræða málið við heimilislækninn þinn. Gangi þér vel.