Eftir utanlegsfóstur

14.12.2018

Góðan dag og þakkir fyrir fróðlega og vandaða síðu Í lok ágúst á þessu ári fékk ég jákvætt þungunarpróf. Gleðin var mikil. Við eigum einn strák fyrir sem er 4 ára og vorum við að „reyna“ í 4 ár áður en við eignuðumst hann. Við notuðum aldrei neina getnaðarvörn eftir að ég átti strákinn svo það virðist taka tíma fyrir mig að verða ólétt. Það kemur þó kannski ekki á óvart þar sem ég er greind með PCOS. Mjög stuttu eftir að ég fékk tvö strik á þungunarprófið í ágúst fékk ég skrítin einkenni, fór í skoðun og grunur lék á ekki var allt með felldu. Tveim dögum síðar kom í ljós að um var að ræða utanlegsfóstur. Ég fékk lyfjameðferð – methotrexate (að mig minnir) – þann sama dag. Dagarnir þar á eftir voru erfiðir líkamlega sem og andlega. 4 eða 5 dögum eftir jákvætt próf lá ég í rúminu, kvalin eftir lyfjameðferð sem eyddi utanlegsfóstrinu og eftir á að hyggja finnst mér ég ekki alveg hafa áttað mig á því hvað raunverulega gerðist. Eftir að þetta gerðist hef ég átt erfitt. Mér finnst ég stundum ekki skilja alveg hvað gerðist og einnig er ég hrædd um að ég sé með kvíða og áfallastreituröskun.... svona eftir því sem ég hef reynt að lesa mér til. Mig langar til að spyrja ykkur fróðu konur: - Hvað get ég gert (annað en að fara til sálfræðings)? Er einhver fræðsla/stuðningur sem ég get sótt mér eða staður sem ég get leitað til? - Ég hef bara farið á blæðingar einu sinni eftir að þetta gerðist (sem er kannski ekkert of óeðlilegt fyrir konu með PCOS) en síðastliðnu tvo daga hef ég verið gríðarlega mikið verkjuð (túrverkir) en ekkert bólar á blæðingunum. (Þungunarpróf er neikvætt). Sem veldur mér samt augljóslega miklum kvíða og ég er hrædd um að eitthvað sé í ólagi. Einhver ráð handa mér? Ps. Ég vil nýta tækifærið og koma á framfæri að allir starfsmennirnir sem sinntu mér á LSH voru englar í mannsmynd. Það var sama hvern ég var að tala við hjúkrunarfræðing, ljósmóður, lækni, sérfræðing eða hvern sem er - allir sinntu mér með einstakri hlýju, fagmennsku og einlægni. Fyrir það er ég óendanlega þakklát.

Heil og sæl, ég held að besta leiðin fyrir þig til að ræða um þessa erfiðu reynslu og fá útskýringar á hvað var í raun að gerast sé að fá þér tíma hjá kvensjúkdómalækni eða ljósmóður á heilsugæslustöðinni þinni. Þar getur þú bæði rætt þína líðan og fengið útskýringar. Gangi þér vel.