Nýburi með magapílur

19.12.2018

Góðan dag, ég er með tveggja vikna strák sem er byrjaður að fá smá magapílur endrum og sinnum seinnipart dags. Hann herpist allur til og lætur í sér heyra í smá stund og svo dettur allt í dúna logn. Í kringum miðnætti fær hann svona pílur og rembingsköst og varir það í ca 1,5 klst. Hann grætur ekki mikið en verður argur og öskrar í smá stund en yfirleitt er hægt að hugga hann áður en næsta píla kemur. Þessu fylgir prump og miklar kúkableyjur. Ég er að velta fyrir mér hvort svona pílur séu yfir höfuð eðlilegar og hvað sé hægt að gera til að forða honum frá þessum óþægindum. Takktakk

Heil og sæl, já þetta er frekar algengt vandamál og lítið við þessu að gera. Gott að útiloka samt að eitthvað sé að, það er reyndar mjög ólíklegt þar sem þetta er á svipuðum tíma sem er dæmigert fyrir ungbarnakveislu. Ef eitthvað væri að honum þá væri það á hvaða tíma sem er.  Ég ráðlegg þér að ræða málið við ungbarnaverndina sem kemur til þín og sjá hvort þær luma á einhverjum ráðum. Oftast hættir þetta á nokkrum vikum án þess að nokkuð sé að gert. Gangi ykkur vel.