Svitna á nóttunni

10.10.2007

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Málið er að ég er komin 39 vikur núna og ég svitna svo svakalega á nóttunni og er búin að gera það síðan á 20. viku. Ég þarf að skipta um bol 2svar-3svar á hverri nóttu, viðra sængina og þvo rúmföt á hverjum degi. Er þetta eðlilegt? Af hverju er þetta svona?

Ég hef heyrt að þetta geti tengst brjóstamjólkinni eitthvað en þýðir það þá að þetta eigi eftir að versna þegar ég er búin að eiga?Sælar!

Með svona nætursvita eins og þú lýsir þekki ég aðallega fyrstu dagana og vikurnar eftir fæðinguna, ég hef ekki heyrt um svona mikinn svita á meðgöngu, nema að konum á meðgöngu er alltaf heitt. Það er meiri bruni í líkamanum hjá konum á meðgöngu og eftir fæðingu miðað við ekki þungaðar konur. Hvort það tengist aukinni svitamyndun - þori ég ekki að segja um - ég tel það ráðlegt hjá þér að ræða við þinn lækni um það hvort hann hafi einhverjar skýringar á þessu.   

Með kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
10. október 2007.