Barmaþroti

04.04.2015

Hæ, mig langar að spyrja um þrota á kynfærum. Ég er komin 26 vikur á leið og ég er komin með mikinn bjúg á barmana. Ég hef lesið að það sé ekki óalgengt á meðgöngu en valdi oft óþægindum. Þrotinn hverfur ekki alveg þegar ég ligg útaf, en minnkar eitthvað. Ég er ekki með bjúg á öðrum stöðum á líkamanum. Ég er dugleg að drekka vatn, fer út að labba reglulega (2x á dag) og reyni að hvíla mig þegar ég get. Ég hef nefnt þetta í mæðraskoðun en þetta var ekki athugað nánar. Er eitthvað sem ég get gert til að minnka þrotann? Er eitthvað sem ég þarf að varast? Hvenær fer þetta úr að vera eðlilegt ástand yfir í að teljast óeðlilegt? Með fyrir fram þökk. Kv. Frú S.

 

Heil og sæl frú S. Jú eins og þú segir er þetta frekar algengt og kemur vegna þrýstings á kerfið í kviðnum. Það er ekki mikið sem þú getur gert nema að reyna að sitja sem minnst. Sumum finnst gott að setja kaldann bakstur við. Það er hægt að setja bindi í frysti eða kæli og nota sem kælibakstur. Sumar konur hafa reynt að vera að fjórum fótum, með rassinn hærra til að létta á þrýstingi. Mér finnst mjög hæpið að þetta verði svo mikið að það verði óeðlilegt. Ef að þér finnst þetta vera orðið þannig að þér líst ekki á blikuna skaltu endilega biðja ljósmóðurina þína í mæðravernd að skoða þig og meta þetta. Gangi þér vel.

bestu kveðjur
Áslaug V.
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
3. apríl 2015