Engar blæðingar

27.01.2019

Sælar og takk fyrir frábæran vef. Ég á tæplega 15 mánaða strák sem ég er enn með á brjósti 2-3 á dag. Ég hef enn ekki byrjað á blæðingum en langar að verða ólétt aftur. Ég er ekki á neinni getnaðarvörn. Verð ég að hætta með hann á brjósti og bíða eftir að blæðingar byrji til að eiga meiri möguleiki á að verða ólétt? Hvað er best að gera í þessari stöðu? Bestu kveðjur, S

Heil og sæl, ég ráðlegg þér að sjá bara aðeins til. Það er mjög einstaklingsbundið hvenær konur verða aftur frjóar eftir barnsburð. Einu sinni var talað um að konur sem notuðu brjóstagjöf sem getnaðarvörn væru allar orðnar ófrískar eftir 18 mánuði. Ef að það er eitthvað til að fara eftir þá ættir það að fara að gerast. Fjölmargar konur verða barnshafandi á meðan brjóstagjöf stendur og þú ættir ekki að vera fórna brjóstagjöf núna þegar ekki er víst að það flýti fyrir getnaði. Ef þú ert mjög óþolinmóð þá ráðlegg ég þér að ræða málið við kvensjúkdómalækni. Gangi þér vel.