Sviði við samfarir

21.05.2012

Sæl.

Ég er gengin 23 vikur og frá ca 5 viku hef ég verið með einhvernskonar "sýkingu eða þurrk" í leggöngum, þetta lýsir sér þannig að ég get bara ómögulega stundað kynlíf þrátt fyrir mikla bleytu, ég fer strax að finna fyrir sviða og brunatilfinningu við legopið og upp snípinn, það þrútnar allt út þarna niðri og ég þarf að hoppa strax í sturtu með ískaldan bakstur á.  Ég er aum allt uppí 2 daga eftir á þ.e.a.s vont að pissa og forðast alla snertingu.  Ég er búin að prófa K-Y gel og flest sleipiefni.  Mig svíður bara og gerir illt verra, Ég fór til kvensjúkdómalæknis, hann bar á mig eitthvað fjólublátt meðal sem átti að drepa alla flóru, en ég skánaði ekkert!

Með von um svör,

Kveðja K.


Komdu sæl.

Helst grunar mig að þú sért með sveppasýkingu.  Mig grunar samt líka að þetta fjólubláa sem læknirinn bar á þig sé einmitt sveppalyf en ég veit það samt ekki fyrir víst.  Þú gætir reynt að fá þér Pevaryl krem og stíla í apóteki og notað það samkvæmt fyrirmælum á pakkanum.  Mundu bara að maðurinn þinn þarf að nota kremið líka jafnlengi og þú.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
21. maí 2012.