Svimi og lakkríste

04.02.2019

Sælar og takk fyrir æðislegan vef! Ég er á 5 viku og hef lesið að svimi geti verið algengt einkenni. Ég er almennt hraust en með lágan blóðþrýsting og síðustu viku hef ég glímt við mikinn svima. Sjúkraþjálfi sagði mér að lágþrýstingurinn minn (áður en ég varð ólétt) væri þannig að sumir væru sofandi (!) og mælti með því að ég drykki kaffi og borðaði lakkrís. En núna verð ég að halda kaffidrykkju í lágmarki svo ég er að velta fyrir mér hvort ég megi drekka lakkríste til að jafna blóðsykurinn og ná upp þrýstingi? Það stendur á lakkrísrótinni sem ég hef drukkið að ég eigi að ráðfæra mig við lækni ef ég er ólétt. Eða lumið þið á einhverjum ráðum til þess að minnka svimann frekar (fleiru en að reyna að halda blóðsykrinum stöðugum með narti)? Takk kærlega!

Heil og sæl, ég mæli alls ekki með lakkrís afurðum til að hækka þrýstinginn. Það er gott fyrir þig að borða og drekka reglulega og sérstaklega drekka vel. Svo er líka ágætt að hreyfa sig og fá blóðið á hreyfingu. Ef að þú ert enn með það mikinn svima að það trufli þig þá ráðlegg ég þér að panta tíma í meðgönguvernd og ráðfæra þig þar við ljósmóður. Gangi þér vel.