Spurt og svarað

04. febrúar 2019

Brjóstapillan - Verri en aðrar getnaðarvarnir?

Góðan daginn Ég eignaðist mitt fyrsta barn í desember, sem er einungist á brjósti. Kvensjúkdómalæknirinn minn mælti með brjóstapillunni sem getnaðarvörn á meðan ljósmóðirin mín sagði að það væri miklu sniðugara að fara á lykkjuna. Nú veit ég ekkert hvað ég á að gera. Mér fannst eins og ljósmóðirin mín væri ekkert sérstaklega að mæla með brjóstapillunni þegar ég spurði út í hana. Við höfðum hugsað okkur að reyna eignast annað barn eftir kanski 3-4 ár. Ég hef þessvegna nokkrar spurningar um brjóstapilluna: 1. Er brjóstapillan "verri" en aðrar getnaðarvarnir? 2. Er hún líklegri en aðrar getnaðarvarnir til að valda ófrjósemi? 3. Nú er ég ekkert byrjuð á blæðingum. Byrjar maður oftast á blæðingum á brjóstapillunni? Mig langar að fara á þá getnaðarvörn sem er með minnstu skaðsemina. Ef það er einhver getnaðarvörn sem er líkleg til að valda ófrjósemi langar mig alls ekki á hana. Takk fyrir að lesa og svara

Heil og sæl, brjóstapillan er ágætis getnaðarvörn, það þarf að passa að taka hana eftir leiðbeiningum eins og á við um öll önnur lyf. Margar konur skipta svo um pillu þegar þær eru hættar brjóstagjöfinni. Ef að þið ætlið að eignast næsta barn eftir 3-4 ár er lykkjan líka vænlegur kostur. Það þarf ekkert að hugsa um hana, hún bara er þarna og ekki þarf að muna eftir að taka hana eða endurnýja lyf í apóteki. Þó að það sé nokkur stofnkostnaður við lykkjuna þá jafnar það sig út ef að á að hafa hana í einhver ár. En það er algjörlega einstaklingsbundið hvað konum finnst vera betri kostur. Ég ráðlegg þér að kynna þér málið vel og jafnvel ræða það við kvensjúkdómalækni. Hvað varðar ófrjósemi þá eiga engar getnaðarvarnir að valda varanlegri ófrjósemi og lykkja og pilla eru með svipuðu öryggi. Gangi þér vel. 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.