Sýklalyf á meðgöngu

11.12.2006

Sælar!

Ég er gengin tæpar 36. vikur núna og er á mínum þriðja skammti af sýklalyfjum á þessari meðgöngu. Ég fékk blöðrubólgu þegar ég var gengin u.þ.b. 16-18 vikur og fékk sýklalyf við henni og svo er ég núna á öðrum skammti á stuttum tíma (3 vikum) vegna eyrnabólgu. Fyrst fékk ég 10 daga skammt af Amoxicillin 750 mg  sem virkaði ekki alveg nógu vel og svo er ég núna að taka Staklox 500 mg næstu vikuna. Mér hefur alltaf verið illa við að taka lyf og þá sérstaklega þegar ég er ófrísk, tek t.d. aldrei verkjalyf. Ég geri mér alveg grein fyrir því að ég verð að taka þetta, annars fer eyrnabólgan aldrei en ég er samt með nagandi samviskubit yfir því. Læknirinn sem ég er hjá hefur ekki verið hrifin af því að setja mig á sýklalyf en segir samt alltaf við mig að þetta eigi ekki að hafa áhrif á fóstrið og sérstaklega ekki þar sem ég er gengin svona langt. Samt er fátt um svör þegar ég spyr út í það hvað sé svona skaðlegt við sýklalyf fyrir fóstrið. Getið þið frætt mig um það, hvaða áhrif þetta geti haft o.s.frv. og hvort að ég sé að gera barninu mínu eitthvað illt?

Kveðja.


Sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Þegar lyf eru tekin á meðgöngu þarf að meta ávinning af notkun þeirra til móts við þá áhættu sem hlýst af töku þeirra og þá þarf að meta bæði þætti sem tengjast móður og barni. Sýklalyf eru mjög mismunandi og á meðgöngu er reynt að velja sýklalyf sem talin eru örugg móður og barni. Það getur nefnilega falið í sér áhættu ef sýkingar fá að grassera í líkamanum og það getur t.d. komið af stað fæðingu fyrir tímann.

Samkvæmt upplýsingum í Sérlyfjaskránni er Amoxicillín skaðlaust fóstrinu. Staklox ætti hins vegar ekki að nota á meðgöngu, nema brýna nauðsyn beri til þar sem öryggi við notkun hjá konum á meðgöngu hefur ekki verið staðfest.

Vona að þessar upplýsingar komi að gagni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
11. desember 2006.